131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:45]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mun reyna að svara mínum ágæta vini og félaga, hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni, þeim spurningum sem hann beindi til mín. Fyrst og fremst er ljóst að það hefur greinilega verið efst í hugum þeirra sem koma að þessum málum í hinum nýja sameinaða háskóla að þeir telja formið sem var valið, einkahlutafélagið, gegnsætt og til að efla þá háskólastarfsemi sem þeir koma til með að standa vörð um og efla til framtíðar.

Mér finnst umræðan um hvaða form er valið, hvort það er sameignarfélagsformið, sjálfseignarstofnunarformið eða einkahlutafélagsformið í raun umræða um keisarans skegg. Ég átta mig ekki á umræðunni. Menn virðast þar reyna að finna einhvern flöt á því, eitthvað sem hægt er að hanga í til að gera málið tortryggilegt.

Ég vona að hv. þingmaður undirstriki í síðara andsvari sínu að hann telji sameiningu háskólanna mikla framför fyrir háskólastigið allt og þarft verk. Ég var að vonast til að hv. þingmenn í stjórnarandstöðunni mundu koma upp í púltið og fagna þessari sameiningu en ekki að leggja fram tillögu sem mundi eingöngu leiða til þess að drepa málinu á dreif. Mér finnst slíkur málflutningur því miður slæmur.