131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:47]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Því miður virðist hæstv. ráðherra ekki átta sig á alvöru málsins. Ég vona að hæstv. ráðherra muni upplýsast í þeirri umræðu sem fram fer í dag og einnig í því nefndarstarfi sem hlýtur að vera fram undan varðandi þetta mál. Það er auðvitað grafalvarlegt þegar þessu formi er komið inn á háskólastigið, formi sem hefur að meginmarkmiði að skila hagnaði. Allt formið miðast við það. Hins vegar höfum við fram að þessu verið með sjálfseignarstofnanir sem ekki hafa haft það sem markmið að skila hagnaði.

Varðandi stjórnunarþáttinn, sem hæstv. ráðherra minntist ekkert á, þ.e. hvernig tryggja á hið akademíska frelsi sem er grundvöllur háskólastarfsins, þá er heldur ekkert á það minnst í svörum hæstv. ráðherra.

Þriðja atriðið sem ég vil kom inn á, þó að tíminn sé stuttur, en ég kem frekar inn á það í ræðu minni á eftir, varðar eignir Tækniháskólans, þ.e. hvernig staðið var að samrunanum. Miðað við þær óljósu fréttir sem við höfum virðast þær í raun einskis metnar en hins vegar hafi hinn háskólinn verið metinn á allt annan hátt. Það er nauðsynlegt að upplýsa það einnig.

En þannig að við forðum öllum misskilningi frá umræðunni vil ég nota þetta tækifæri og fagna því að menn (Forseti hringir.) skuli ná samstarfi við atvinnulífið. En það er lykilatriði að (Forseti hringir.) samstarfið sé byggt á jafnréttisgrundvelli.