131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:49]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er að sjálfsögðu á mælendaskrá með ræðu í þessu máli. Þá kem ég til með að fara yfir sjónarmið mín í þessum efnum. En áður en lengra er haldið tel ég rétt að hæstv. ráðherra svari spurningu varðandi skólagjöld þeirra nema sem nú stunda nám í frumgreinadeildinni.

Mér hefur borist til eyrna að frumgreinadeildarnemar geri ráð fyrir því að þeir verði rukkaðir um skólagjöld um leið og þeir komast upp úr frumgreinadeildinni og inn á háskólastigið. Það verður ekki séð af því hvernig frumvarpið er orðað hvort þeir frumgreinanemar sem hafið hafa nám eru meðtaldir í þeim nemendahópi sem fær að ljúka námi án skólagjalda eins og til er stofnað.

Það er nauðsynlegt að hæstv. ráðherra svari þeirri spurningu hér og nú: Hver verður staða þeirra nema sem eru í frumgreinadeild í dag? Þurfa þeir að greiða skólagjöld þegar þeir eru komnir upp á háskólastigið eða fá þeir að ljúka námi eins og til er stofnað, án skólagjalda, enda hafi þeir hafið nám og gert áætlanir til framtíðar um að ljúka háskólanámi eftir 4–6 ár?