131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:53]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og fram kom við upphaf þessarar umræðu í andsvörum og innskotum sem komið hefur verið að er um mikilvægt mál að ræða, bæði skólapólitískt og fordæmisgefandi fyrir framhald þróunar á háskólastiginu að mörgu leyti. Þess vegna hafa menn gert eignarhaldið að sérstöku umtalsefni við upphaf 1. umr. um málið, sem vonandi mun fá vandaða og ítarlega málsmeðferð í menntamálanefnd á fyrstu mánuðum næsta árs.

Komið hefur fram að hér er um að ræða form á eignarhaldi sem er fordæmalaust á háskólastiginu á Íslandi, sem og víðast hvar annars staðar. Horfið skal frá sjálfseignarstofnunarforminu sem t.d. er notað í Háskólanum í Reykjavík og Viðskiptaháskólanum á Bifröst. Það fyrirkomulag hefur reynst alveg hreint prýðilega þar og engin svör hafa fengist við því af hverju ekki er notast við það form. Af hverju er farið frá því formi og hverju skal ná fram með því að hinn nýi skóli verði einkahlutafélag? Það form er almennt notað út frá arðsemissjónarmiðunum einum. Þess vegna hefur það ekki verið notað á háskólastiginu, þar sem skólar hafa almennt ekki verið reknir út frá arðsemissjónarmiði heldur skólastefnunni o.s.frv.

Á þessu hafa ekki fengist neinar skýringar. Sá þunni þrettándi sem fram kemur í frumvarpinu sjálfu greinir ekki á neinn hátt frá því. Þetta er grundvallarbreyting á rekstrarformi á háskólastigi, ekki bara á Íslandi heldur og, eins og ég sagði áðan og hefur komið fram hjá öðrum hv. þingmönnum, um allan hinn vestræna heim. Einungis eru örfá dæmi til um þetta frá Bandaríkjunum en almennt, ekki einu sinni þar, tíðkast slíkt rekstrarform ekki á sjálfstæðum eða einkareknum háskólum, hvernig sem menn vilja orða það.

Áhyggjurnar vegna þessa forms koma t.d. fram við skipan háskólaráðs þar sem nemendum var ekki gefinn kostur á að velja inn fulltrúa. Ekki var gert ráð fyrir því í sjö manna stjórn sem skipuð var af einkahlutafélaginu sjálfu sem er jafnframt háskólaráð hins nýja skóla. Auðvelt er að leiða rök að því að slíkt ráð sé ósjálfstætt frá rekstraraðilanum, að akademískt frelsi starfsmanna skólans og stjórnar háskólaráðsins sé ekki nægjanlegt. Þótt það geti að sjálfsögðu mögulega farið saman er það ekki tryggt í forminu sjálfu.

Rekstrarfélag hins nýja skóla er í hlutafélagaformi, sem er efnahagslegur félagsskapur, en slíkum félögum er samkvæmt upplegginu ætlað að skila eigendum sínum arði, sem er þvert gegn viðhorfum og markmiðum einkarekinna skóla á háskólastigi á Íslandi. Ég ítreka að sjálfseignarstofnanaformið, sem bestu skólar Bandaríkjanna eru t.d. reknir eftir, hefur reynst ágætlega

Hins vegar getur vel verið að þetta rekstrarform eigi rétt á sér. Þess vegna spurði ég hæstv. ráðherra, í andsvari áðan: Af hverju var það valið og hverju á að ná fram með því? Af hverju er þessi grundvallarbreyting á rekstrarformi háskóla valin og hvert er markmiðið með því, hver er tilgangurinn? Það er prinsippmál og við þurfum að fá upplýsingar um það í umræðum um sameiningu Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík: Hvert er markmiðið með því? Ógnar það sjálfstæði skólanna, akademísku frelsi skólanna, sem er algjört grundvallaratriði í rekstri hvers skóla?

Sé ætlunin að reka skólann í hagnaðarskyni fyrir eigendur hans er einfaldlega um að ræða allt aðrar áherslur í skólastarfi á háskólastigi en við höfum áður séð. Þess vegna spyrjum við hvort verið sé að brjóta niður múra á milli faglegs sjálfstæðis og viðskiptasjónarmiða. Hæstv. ráðherra og öðrum stjórnarliðum gefst að sjálfsögðu nægur tími til að útskýra þetta fyrir okkur í umræðunni í dag, í nefndinni og við 2. og 3. umr. um málið.

Eins og ég segi þá er ekkert sem segir það fyrir fram að slíkt form eigi ekki rétt á sér en hins vegar þarf að útskýra vel og vandlega af hverju þetta form er valið umfram sjálfseignarformið.

Einnig hefur sjónum manna verið beint að þeirri meginbreytingu á aðgengi að grunnnámi á háskólastigi sem felst í sameiningunni, þ.e. að tæknifræðinámið verði ekki lengur aðgengilegt nema í gegnum einkaskóla og þar með í gegnum skólagjöld. Hæstv. ráðherra var spurður að því fyrr í haust hvort til standi að tryggja með einhverjum hætti að nemendur hins nýja skóla, sem ætla að nema tæknifræði, eigi aðgengi að slíku námi án verulegra skólagjalda, þ.e. án hærri skólagjalda en innheimt eru í grunnnámi á háskólastigi.

Svarið við því er að svo verði ekki, að hér sé verið að taka tækninámið út úr öðru grunnnámi á háskólastigi og það verði einungis aðgengilegt með greiðslu skólagjalda í einkareknum skóla. Allt um það þá hlýtur það að þarfnast útskýringa og auðvitað hefði átt að fara fram, ef svo á að vera, heildstæð umræða og úttekt á því hvort almennt eigi að taka upp skólagjöld á grunnnám í ríkisháskólunum. Það hlýtur að fylgja. Af hverju á að rukka skólagjöld af grunnnámi í tæknifræði en ekki t.d. guðfræði, viðskiptafræði, lögfræði, íslensku, heimspeki, bókmenntafræði, tannlæknanámi og svo mætti lengi telja? Hver er munurinn þar á? Af hverju eiga íslenskir námsmenn ekki að eiga kost á grunnnámi í tæknifræði án þess að borga hærri skólagjöld en nú eru innheimt í ríkisháskólunum þremur sem verða eftir að Tækniháskólinn rennur saman við Háskólann í Reykjavík? Við því hlýtur að vera einfalt svar. Af hverju er verið að mismuna greinunum með þessum hætti? Þá er sjálfsagt mál að taka heildstæða umræðu um hvort taka eigi upp skólagjöld í meira mæli til að fjármagna nám á háskólastigi en af því sem er að sjá hér og samkvæmt ummælum ráðherra í blaðagreinum, þá er þetta ekki vísbending um að taka eigi upp skólagjöld í grunnnámi í ríkisháskólunum þremur. Þess vegna spyr ég: Af hverju er verið að taka tæknifræðina út úr öðru námi? Af hverju gildir ekki hið sama um nám í tæknifræði og í öðru námi?

Ég gat áðan um skipan háskólaráðs þar sem ástæða er til að ítreka það og skora á væntanlega eigendur hins nýja skóla að standa öðruvísi að málum og tryggja með mjög skýrum hætti akademískt frelsi hinnar nýju stofnunar. Það er sjálfsagt mál og öllum í hag að gera það og eykur trúverðugleika skólans og þá möguleika sem hann hefur á að verða öflugur og kraftmikill skóli á þessum vettvangi að akademískt frelsi hans sé að fullu og öllu tryggt og að sjálfsögðu að fulltrúar nemenda og kennara eigi þar sæti eins og gengur og gerist í öðrum háskólum almennt og yfirleitt.

Það hlýtur að vera markmið allra, bæði þeirra sem koma til með að reka hinn nýja skóla sem og annarra, að akademískt frelsi verði fullkomlega tryggt og faglegt sjálfstæði skólans verði tryggt frá rekstrarlegum sjónarmiðum, af því að hlutafélagsformið er að sjálfsögðu form hinna rekstrarlegu sjónarmiða, bisnessform, og þess vegna þurfum við að fá fram skýran ásetning um að fagleg sjónarmið ráði för og akademískt frelsi skólans verði tryggt.

Í frétt í blöðunum í október var tilkynnt hverjir sitja í hinu nýja háskólaráði sem tilnefnt er af Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Verslunarráði Íslands, en þessir aðilar mynda væntanlega hið nýja einkahlutafélag um rekstur skólans. Kennsla í skólanum, er sagt, verður með óbreyttu sniði út þetta skólaár undir stjórn núverandi skólaráða og rektora en nýtt háskólaráð, sem þar var skipað, tekur við haustið 2005.

Aftur að sameiningu skóla. Það eru að sjálfsögðu margir góðir kostir til sameiningar og eflingar á háskólastigi. Hér erum við sérstaklega að ræða um að við viljum efla tækni- og verkfræðinámið sem þörf er á. Það er gott tækni- og verkfræðinám rekið í Háskóla Íslands og Tækniháskólanum, en markmið mjög margra, og hefur komið fram í skólapólitískri umræðu síðustu missira, er að efla það enn frekar með þeim hætti að fleiri stundi nám í tækni- og verkfræðigreinum og það hlýtur að vera ágætur kostur í því að fjölga verulega nemendum í þeim greinum og efla það nám verulega að fleiri en einn skóli bjóði upp á það.

Þess má geta að það kom fram í greinum í Morgunblaðinu, bæði eftir Einar H. Jónsson, formann Tæknifræðingafélags Íslands, svo og Stefán Friðgeirsson, formann Verkfræðingafélags Íslands, að þeir hefðu viljað sjá hér rísa einn Tækniháskóla, eins og það er kallað, en ekki tvo og segir Stefán í grein sinni að sameining Tækniháskólans og Háskólans í Reykjavík tefji fyrir þeirri þróun. Fleiri hafa skrifað og fært rök fyrir því að það borgi sig að setja öll eggin í eina körfu, að vera með einn tækniháskóla en ekki tvo.

Ég tek ekki undir það sjónarmið. Ég held að það sé ágætur kostur að vera með tvo skóla á háskólastigi sem bjóða upp á gott og öflugt og vandað nám í tækni- og verkfræði og við verðum að sjálfsögðu að ná þeim markmiðum skilyrðislaust fram ef af þessari sameiningu verður, sem að sjálfsögðu allt lítur út fyrir að verði, og nýta þau tækifæri sem geta verið í og eru í aflinu á háskólastigi. Núna eru um 3.500 manns á vinnumarkaði með tækni- og verkfræðimenntun og er það verulega mikið lægra hlutfall en gerist á meðal grannþjóða okkar og annarra Evrópuþjóða og hefur komið fram, bæði hjá stjórnvöldum og skólasamfélaginu öllu og Verkfræðingafélaginu og Tæknifræðingafélaginu, mikill ásetningur um að fjölga þeim verulega á vinnumarkaði sem hafa slíka menntun.

Það er oft nefnt sem ein af undirstöðunum fyrir því mikla efnahagsævintýri sem á sér stað í Finnlandi og kemur víða fram að þeir hafa sett mikla fjármuni í fjárfestingar í tækni- og verkfræðinámi og ættum við Íslendingar að sjálfsögðu að taka þá okkur til fyrirmyndar í því og nota tækifærið og reyna að efla þetta nám verulega og nýta okkur hina fyrirhuguðu sameiningu til þess að rétt verði að henni staðið.

Það eru hins vegar margir aðrir möguleikar á slíkum sameiningum og komið hafa fram hjá ýmsum ábendingar um hvort aðrir kostir hafi verið skoðaðir. Spurði ég hæstv. ráðherra að því í umræðum á þinginu fyrr í haust hvort farið hefðu fram könnunarviðræður um aðra sameiningarkosti eins og t.d. sameiningu Tækniháskólans við verkfræðideild Háskóla Íslands og stofna um það sérstakan skóla, eða sameiningu Tækniháskóla Íslands og Viðskiptaháskólans á Bifröst o.s.frv. Það eru margir aðrir kostir í boði og til að ná sem allra bestum árangri og til að gæta jafnræðis og sanngirni er sjálfsagt mál að skoða alla slíka kosti einnig. Það liggur ekkert í augum uppi að einn skóli á háskólastigi eigi að fá aðgang og kost á því að sameinast Tækniháskólanum umfram aðra. Viðskiptaháskólinn á Bifröst hefur t.d. einnig lýst yfir eindregnum áhuga á því að hefja kennslu og menntun í tækni- og verkfræðinámi við sinn skóla, skiljanlega, þar sem hann er einnig eins og Háskólinn í Reykjavík mjög öflugur skóli sem hefur sannað það á síðustu árum að hann er að útskrifa ákaflega vel menntað fólk. Því er eðlilegt að það komi fram hér í umræðunni af hverju ekki var rætt við þann skóla einnig. Voru þessir kostir allir skoðaðir? Hvað olli því því þá að þessi kostur varð ofan á að lokum eftir að kannaðir höfðu verið allir kostir sem í boði eru? Það er að sjálfsögðu mjög eðlilegt þegar svo afdrifarík ákvörðun er tekin, að sameina skólastofnanir, að allir aðrir kostir hafi verið skoðaðir einnig.

Það hefur verið nefnt í þessari umræðu síðustu mánuðina, sem segja má að hafi hafist í ágúst, 24. ágúst held ég að hafi birst frétt um það í Morgunblaðinu að fyrirhugað væri að þessi samruni ætti sér stað og svo síðar um haustið, í október held ég, birtist frétt um að viljayfirlýsing hefði verið undirrituð á milli þessara aðila og menntamálayfirvalda sem lítur nú dagsins ljós í þessu frumvarpi, að það hljóti að koma upp spurningar um hvort og á hvað eignir og ef svo má segja viðskiptavild, skólaleyfi o.s.frv., Tækniháskólans sé metið. Það kemur fram að það sé borgað með skólanum og að borga eigi upp þann halla sem honum fylgir á næsta ári þó að ekki hafi verið gert ráð fyrir því í fjárlögum eða eins og sagt er að eignir Tækniháskóla Íslands og viðskiptavild virðist í engu metnar inn í hið nýja hlutafélag og Háskólinn í Reykjavík muni eiga 270 millj. af 300 millj. kr. hlutafé. Afgangur hlutafjárins komi síðan frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum iðnaðarins.

Þetta fyrirkomulag kallar á þá spurningu hvort búast megi við því að þetta mundi fylgja með við fleiri sameiningar, t.d. ef Viðskiptaháskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri yrðu óvænt sameinaðir. Nú var verið að sameina nokkra skóla í Landbúnaðarháskóla Íslands og ekki hefur annað frést en að sá rekstrarhalli sem þar var um að ræða hafi fylgt með inn í þá sameiningu. Stendur til að gæta þarna jafnræðis og af hverju stóð ríkisvaldið að því með þessum hætti? Á hvað voru eignir Tækniháskólans metnar sem og hefðin, sagan og viðskiptavildin? Hvaða hugtök best er að nota til að ná utan um það nákvæmlega þá er þetta skóli með ríka sögu, og þótt hann hafi vissulega átt undir högg að sækja út af fjárhagslegum þrengingun á síðustu missirum og á þeim fáu árum sem liðin eru síðan hann var gerður að háskóla, þá er hann samt að sjálfsögðu töluverðs virði. Þess vegna er rétt að það komi fram hvort verið sé að gefa eignir skólans og borga svo með honum á annað hundrað milljónir eða hvernig þessi mál hafi verið hugsuð. Þessu hlýtur hæstv. ráðherra að svara í síðari ræðu sinni því auðvitað á skólinn inni mikla, ef svo má kalla, viðskiptavild. Þetta er virtur skóli sem margir líta til enda stunda þar margir nám og er sjálfsagt að ræða þetta mál.

Rétt er að geta þess undir lok ræðutíma míns að mjög mikilvægt er að það verði tryggt um framtíð alla að nemendur geti sótt nám í frumgreinadeildunum án þess að greiða fyrir það hærri skólagjöld en gerist og gengur í ríkisreknu háskólunum. Eitt af því kannski merkilegasta og mikilvægasta við Tækniháskólann og Tækniskólann þar áður, er frumgreinadeildin þar sem iðnmenntuðu fólki og öðrum sem hafa verið að vinna við ýmis slík fög gefst kostur á að koma aftur til náms, ganga í einn skóla þar sem fyrst er um að ræða nám í frumgreinadeild sem lýkur með nokkurs konar stúdentsprófi af verknámsbraut. Síðan tekur við nám í einhverri þeirra deilda sem þar eru starfandi, tæknifræðinám í þessu eða hinu, þannig að fólk innritast í einn skóla og byrjar þar í frumgreinadeildinni og útskrifast úr sama skólanum nokkrum árum síðar sem er mjög eftirsóknarvert. En þessi hefð í starfsemi Tækniháskólans er mjög glæsileg og mjög mikilvæg í okkar skólastarfi. Ég held að það sé áríðandi að stjórnvöld standi vörð um frumgreinadeildina alveg sérstaklega þó svo að stjórnvöld ákveði að taka tæknifræðina þannig út úr og mismuna henni miðað við aðrar greinar í grunnnámi á háskólastigi og láta hana standa þannig eina greina að ekki sé hægt að stunda hana nema að greiða fyrir það há skólagjöld og miklu hærri en tíðkast í ríkisháskólunum. Það er að mínu mati ranglæti og ójafnræði á milli greina og stjórnvöld ættu að tryggja að nemendur geti stundað nám í hinum nýja skóla í tæknifræðigreinunum án þess að greiða fyrir það hærri skólagjöld en tíðkast í hinum ríkisháskólunum þremur.

Mér finnst þetta mjög mikilvægt atriði og ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir að svo megi verða. Sérstaklega þarf að taka utan um og hlúa að frumgreinadeildinni. Hún er, og ég efast ekki um að hæstv. menntamálaráðherra er því sammála, mjög mikilvægur hlekkur í menntasamfélaginu, í skólakerfi okkar, þar sem frumgreinadeildin eru dyrnar til að koma inn fyrir iðnaðarmenn og aðra sem hafa stundað hin ýmsu störf í samfélaginu til að fá fyrri menntun sína og störf metin og taka nokkrar annir í frumgreinadeild og hefja síðan nám í tæknifræðigreinum ýmiss konar.

Þetta er mjög mikilvægur þáttur og ég vona, hvernig sem þessu máli reiðir af hér á næstu vikum og mánuðum í meðförum menntamálanefndar, að þetta standi alveg sérstaklega upp úr, að staðinn verði vörður um frumgreinadeild þar sem nemendur geta sótt nám án þess að greiða fyrir það hærri skólagjöld en tíðkast í ríkisháskólunum þremur í öðrum greinum þar, sem og um tæknifræðinámið allt.