131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:18]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er kannski auðveldast að svara spurningum hv. þingmanns með því að segja, að í sjálfu sér er það ekki menntamálaráðherrann sem á að taka ákvörðun um hvaða form einstaklingarnir sem taka að sér þennan rekstur velja. Ég geri hins vegar ráð fyrir, vegna þess að ég þekki félagarétt ágætlega, að menn hafi kosið að velja sér einkahlutafélagaformið vegna þess að það er miklu þægilegra rekstrarform en sjálfseignarstofnunarformið, sem er að mörgu leyti gengið sér til húðar og ekki jafnþægilegt og einkahlutafélagsformið.

Það var annað í ræðu hv. þingmanns sem ég vil gera að umtalsefni, en það er andúð hans í garð skólagjalda, hann galt ákveðnum varhuga við skólagjöldum og innleiðingu þeirra. Mér fannst það dálítið sérstakt og það kom mér á óvart, vegna þess að fyrir framan mig er ég með umræðuplagg frá Samfylkingunni um hið ábyrga stjórnvald, rekstrarform í almannaþjónustu, sem Samfylkingin hefur lagt fram og að því hafa staðið, m.a. hv. þingmenn Bryndís Hlöðversdóttir og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. Þar er vikið að skólagjöldum og að rannsókn sem fræðimenn við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands létu framkvæma og birta haustið 2004. Þar segir, með leyfi forseta:

„Skoða má hvort einstaklingar sem geta vænst slíks arðs af námi sínu greiði einhvern hluta þess kostnaðar sem af menntuninni hlýst.“

Á öðrum stað segir, með leyfi forseta:

„Mætti e.t.v. segja að óeðlilegt sé að skattgreiðendur beri allan kostnað af menntun einstaklinga sem geta vænst slíks einkaarðs af sínu námi.“

Með öðrum orðum, frú forseti, það virðist vera stefna Samfylkingarinnar að eðlilegt sé að skólagjöld séu tekin upp og stúdentar (Forseti hringir.) beri að töluverðu leyti stóran hluta (Forseti hringir.) af kostnaði sem til fellur við nám þeirra. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála stefnu Samfylkingarinnar hvað varðar (Forseti hringir.) skólagjöld og hvort þetta sé ekki (Gripið fram í.) stefnan.