131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:09]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú verð ég að játa að mér er ekki kunnugt um það hvort þeir aðilar sem ætla að taka að sér rekstur þessa sameinaða skóla gerðu kröfu um að það yrði gert á þessu formi eða öðru. Við munum fá tækifæri til þess að spyrja þá spjörunum úr þegar málið kemur til menntamálanefndar. Það sem ég er bara að segja er að þegar menn ákveða að fara með stofnun eins og þennan skóla í einkarekstur eru það þeir sem annast þann rekstur sem verða sjálfir að fá að ákveða á hvaða formi hann fer fram. Að öðrum kosti væri ekki um neinn einkarekstur að ræða. Þá væri bara ríkið að nafninu til að færa málin í form einkareksturs en réði sjálft með hvaða hætti sá rekstur færi fram. Það er ekki hugmyndin, hv. þingmaður, með því að færa rekstur ríkisstofnana til einkaaðila.

Hv. þingmaður kom að skólagjöldunum enn og aftur og sagði að á Íslandi væri ríkisstjórnin að taka upp skólagjöld við ríkisháskólana. Það er náttúrlega fullkomlega rangt og við munum fá tækifæri til að ræða það hér þegar þau mál sem varða skrásetningargjöld í háskólana verða til umræðu. Það er alveg ljóst að það er ekki verið að taka upp skólagjöld við þá skóla.

Ég hlýt að fagna því — ég verð að segja það aftur — og hrósa hv. þingmanni fyrir það að vera heiðarlegur í málflutningi sínum og lýsa því hér yfir að hann útiloki ekki að tekin verði skólagjöld við ríkisháskólana, svo lengi sem það verði ekki gert á kostnað jafnréttis til náms, þá með aðkomu Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Ég ítreka að þessi stefna hv. þingmanns og Samfylkingarinnar er í fullkomnu samhengi (Forseti hringir.) og samræmi við stefnu Heimdallar og Sambands ungra sjálfstæðismanna í málinu. Til hamingju með að hafa tekið þá stefnu.