131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[16:14]

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Ég hygg að það sé óhjákvæmilegt annað en að leggja orð í belg í þessari umræðu sem fjallar um afnám laga um Tækniháskóla Íslands vegna þess að kjarninn í breytingunni er sá að taka upp skólagjöld í námi sem ríkið býður nemendum upp á í dag í Tækniháskólanum og verður eftir breytinguna boðið upp á af öðrum aðila gegn greiðslu skólagjalda. Þess vegna er málið viðamikið og snýst um grundvallaratriði í menntastefnu stjórnvalda.

Áður en ég vík að því eru fáein atriði sem ég vildi koma að sem lúta að frumvarpinu með beinum hætti. Mig langaði að beina fyrirspurnum til hæstv. menntamálaráðherra og biðja um frekari skýringar á einstökum atriðum sem fram koma í frumvarpinu.

Ég vil fyrst víkja að nýja skólanum og spyrja hæstv. ráðherra hvað áformað er í þeim efnum. Er áformað að flytja starfsemi nýja skólans frá þeim stöðum þar sem starfsemin fer fram núna og byggja nýjan háskóla eða kaupa nýtt húsnæði, eða hver eru áformin í þeim efnum, hafa menn skoðað fjárhagshliðina í þeim áformum og athugað hvort það geti gengið upp með því að selja þær eignir sem hið nýja fyrirtæki kemur til með að eignast eða verður leitað til ríkissjóðs um stuðning við að koma upp nýju húsnæði fyrir hinn nýja háskóla?

Mig langar í öðru lagi að spyrja frekar um þann halla sem getið er um í fylgiskjali frá fjármálaráðuneytinu. Hvort það sé rétt skilið að sá kostnaður sem frumvarpið leiðir til, 130–150 millj. kr. útgjöld, eins og segir í umsögninni, fyrir ríkissjóð, verði það óbreytt að lögum, hvort það þýði að þetta sé kostnaður í eitt skipti þannig að það leiði ekki hinn sameinaða rekstur til nýrra útgjalda fyrir ríkissjóð þannig að samningar við nýja skólann um greiðslur fyrir kennslu verði með þeim hætti að kostnaður ríkissjóðs verði ekki meiri en hann er í dag á því formi sem hann er. Mig langaði að falast eftir upplýsingum um það þannig að það kæmi hér skýrt fram.

Í þriðja lagi langar mig að biðja hæstv. ráðherra, ef hún hefur tök á, að greina dálítið hallareksturinn þannig að við fáum nánari skýringar á því hvernig hann er til orðinn, því eins og kom fram fyrr í umræðunni er þetta nýr skóli. Tækniháskóli Íslands var stofnaður fyrir tveimur árum eða svo og má skilja greinargerð fjármálaráðuneytisins þannig að hallinn hafi komið til á starfstíma Tækniháskóla Íslands, sem væri býsna alvarlegt mál ef hallinn hefði verið svo mikill á aðeins tveimur árum. Ég hygg að finna megi á þessu skýringar sem eigi rætur sínar að rekja til fyrri tíma og hygg að rétt væri að draga þær upplýsingar fram þannig að ekki verði misskilið hvernig hallinn kom til.

Þá vil ég einnig spyrja hæstv. ráðherra um starfsemi hins nýja skóla, hvort áformað er að hann tengist kennslu í íþróttafræðum sem mun eiga að fara fram í Reykjanesbæ og ef svo er hvort það hafi einhver áhrif á kennslu Íþróttakennaraháskólans eða Kennaraháskóla Íslands á Laugarvatni, en ég hef heyrt áhyggjur manna af því að þessir tveir skólar kunni að tengjast saman hvað þetta varðar.

Í fjórða lagi spyr ég aðeins um frumgreinadeildina. Ég rek augun í að í viljayfirlýsingunni og reyndar í greinargerðinni með frumvarpinu segir hvað frumgreinadeildina varðar, að hinn nýi háskóli muni bjóða upp á sérhæft undirbúningsnám, sambærilegt námi í frumgreinadeild Tækniháskóla Íslands. Verður þetta sérhæfða undirbúningsnám skilgreint með sama hætti og námið í frumgreinadeild, þ.e. nám á framhaldsskólastigi? Munu lög um það nám gilda um námið og m.a. líka ákvarðanir sem lúta að gjaldtöku fyrir námið? Ég hygg að það sé rétt að fá þetta skýrt. Mér heyrðist á framsöguræðu ráðherra að meiningin væri að frumgreinadeildin og það sem við henni tekur yrði rekið með sama hætti og frumgreinadeildin hefði verið og yrði undanþegin skólagjöldum, en ég vildi spyrja um þetta með beinum hætti þannig að það kæmi skýrt fram svo ekki verði misskilið síðar.

Þá er það formið á málinu, að stofna einkahlutafélag um þennan nýja háskóla. Það má velta því fyrir sér hvers vegna menn fara þá leið að leggja niður nýstofnaðan háskóla aðeins tveimur árum eftir að honum hefur verið komið á fót. Mér finnst, svo ég segi það virðulegi forseti, vanta dálítið skýringar á því hvers vegna menn taka þessa U-beygju í uppbyggingu tæknináms frá því sem ákveðið var fyrir svo stuttum tíma. Ég held að menn hljóti að kalla eftir skýrari svörum við því hvers vegna menn taka þessa miklu stefnubreytingu að leggja niður skólann með formlegum hætti og tengja námið sem í honum er við annan skóla á allt öðru sviði.

Hæstv. ráðherra rakti í framsögu sinni, ef ég skildi rétt, að horft væri til þess að líta til samlegðaráhrifa og auka fjölbreytni með sameiningunni. Vissulega geta það verið rök fyrir málinu en ég spyr: Var gerð úttekt á hugsanlegum kostum þess að færa saman starfsemi Tækniháskólans og Háskóla Íslands, einkum þá verkfræðideild þess háskóla í menntamálaráðuneytinu?

Ef menn horfa til samlegðaráhrifa með því að breyta tveimur skólum í einn þá finnst mér að ríkið, sem á bæði Háskóla Íslands og Tækniháskólann, ætti eðlilega að horfa til þess hvaða samlegðaráhrif kunni að vera á því að sameina þá tvo skóla eða starfsemi þeirra undir einum hatti. Ég spyr: Var gerð úttekt af þessu tagi og liggur fyrir hvaða ávinningur gæti hafa orðið af því?

Ég vil víkja að öðru, sem lýtur að skólagjöldunum. Ég neita því ekki að það mál stendur verulega í mér að breyta námi sem ríkið býður upp á í dag og mun ekki bjóða upp á eftir breytinguna yfir í nám sem verður boðið upp á gegn skólagjöldum. Það má vænta þess að þau skólagjöld verði þau sömu og eru í Háskólanum í Reykjavík í dag eða um 200 þús. kr. á ári. Þar með er málið komið í þann farveg að snúast um það hvort menn vilji taka upp skólagjöld eða ekki. Að formi til snýst málið um það hvort menn vilji fara úr ríkisrekstri yfir í einkarekstur. Ég hef út af fyrir sig ekki stífar meiningar í því, ég er tiltölulega opinn fyrir einkarekstri á sem flestum sviðum, þó hef ég fyrirvara á því hversu langt menn eigi að ganga í þeim efnum, sérstaklega að starfa í mjög stífum hagnaðar- eða ábatarekstri, hvort heldur það er í menntakerfinu eða heilbrigðiskerfinu og er heldur varfærinn í þeim efnum. En ég tel ekki ástæðu til að andmæla því eða hafna því að menn færi formið úr þeim rekstri sem verið hefur yfir í rekstur þar sem aðrir koma að því, annaðhvort einir eða í samstarfi við ríkið. Ég held að það sé ekki stóra áhyggjuefnið í þeim efnum og ég er ekki mjög hræddur við þá breytingu og ég held að það að tengjast atvinnulífinu geti að mörgu leyti verið ávinningur fyrir skólastarfið.

Skólagjöldin eru stóra málið í frumvarpinu vegna þess að breytingin leiðir til þess. Ég velti því fyrir mér, ef við stígum þetta skref núna hvað varðar þennan háskóla erum við þá ekki búin að fallast á það að stíga önnur skref varðandi annað nám sem ríkið býður upp á í dag, nám í Listaháskóla Íslands, nám í Háskólanum á Akureyri eða í einstökum deildum í Háskóla Íslands? Erum við þá ekki búin að fallast á að færa það úr því formi sem það er yfir í eitthvert annað form, hvort sem það er sjálfseignarstofnun eða einkahlutafélag? Breytingin verður þá sú að menn eru að innleiða skólagjöld í námið, það er stóra breytingin. Ég held að það sé ekki hægt að fara í gegnum þessa formbreytingu á tæknináminu án þess að fara um leið í gegnum umræðuna um skólagjöld, það er svo nátengt að það verður ekki sundur slitið.

Fyrra atriðið sem tengist því sem ég held að sé ástæða til að vekja athygli á er hinn mikli munur sem er í dag — og hefur viðgengist í nokkuð mörg ár — á skólum eftir því hvort þeir eru ríkisskólar eða ekki, munurinn sem felst í því að skólar sem ekki eru ríkisskólar hafa heimild í lögum til þess að innheimta skólagjöld og ráða því nokkuð sjálfir hvað þau verða mikil. Ríkið hefur gert skólunum kleift að fara mjög hratt inn á þessar brautir með því að opna Lánasjóð íslenskra námsmanna fyrir því að fjármagna skólagjöldin. Það þýðir í raun að ríkið er að styrkja rekstrarformið utan ríkisháskólanna umfram það sem það styrkir ríkisháskólana. Eftir lækkun á endurgreiðsluhlutfalli námslána niður í 3,75% er talið að lán úr Lánasjóði námsmanna séu að meðaltali um 53% ríkisstyrkt, sem þýðir t.d. fyrir nám í Háskólanum í Reykjavík, þar sem eru innheimt 200 þús. kr. skólagjöld á einum vetri, að liðlega 100 þús. kr. styrkur úr ríkissjóði rennur til skólans í gegnum nemandann umfram það sem ríkið leggur til sambærilegs náms í Háskóla Íslands eða í Háskólanum á Akureyri. Með því móti er ríkið auðvitað að mismuna formunum. Það er að bjóða meiri peninga til þeirra sem standa að háskólastarfi í formi einkaháskóla eða sjálfeignarstofnana en þeirra sem starfa hjá ríkinu. Það er ekki eðlilegt að gera slíkt og ég tel að við getum ekki rekið þá mennta- eða skólapólitík að mismuna formunum með þeim hætti sem þarna er gert. Það er ekki eðlilegur hlutur, enda hafa forstöðumenn ríkisháskólanna bent ítrekað á það og gert athugasemdir við þá mismunun sem felst í þessari pólitísku ákvörðun að styrkja aðra skóla í gegnum lánasjóðinn með því að fjármagna skólagjöldin.

Þetta er fyrra atriðið sem skiptir verulegu máli og er satt að segja alveg óþolandi mismunun á milli skólanna. Við getum ekki haft þá menntastefnu í háskólanámi að mínu mati. Menn verða að búa þannig að skólunum að jafnræði gildi við kennslu og rannsóknarstarf í skólunum óháð því hvort þeir eru ríkisskólar eða ekki.

Hitt er svo skólagjöldin sem lúta að nemendunum. Það er heilmikið mál hvort menn eigi að taka upp skólagjöld og það hefur verið rætt, t.d. í Framsóknarflokknum. Menn hafa tekið mjög eindregna afstöðu í þeim efnum. Það útilokar auðvitað ekki að menn taki umræðuna upp á nýjan leik og komist kannski að annarri niðurstöðu en er í dag, en horfa verður á ýmsa hluti í þeim efnum.

Lítum t.d. á nám grunnskólakennara. Í sumar kom út skýrsla frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem leiddi í ljós að arðsemin af kennaramenntuninni er núll, þannig að miðað við það kerfi sem gildir í dag gerir tekjuaukinn af menntuninni ekki meira en að borga kostnaðinn við menntunina, sem fyrst og fremst er fólginn í þeim hluta af námslánunum sem viðkomandi einstaklingur greiðir að lokum.

Gerum ráð fyrir því að við hækkum kostnað við að afla sér menntunar, t.d. með því að taka upp skólagjöld eins og í Háskólanum í Reykjavík, um 200 þús. kr. á ári. Í fjögurra ára námi yrði kostnaðurinn hækkaður um 1 millj. kr. Þá er ég hræddur að arðsemin yrði ekki lengur núll, heldur neikvæð. Þetta er eitt af þeim atriðum sem horfa þarf til.

Sum störf sem krefjast langrar skólagöngu eru þannig að þau gefa góðar tekjur, eins og læknisfræði, jafnvel lögfræði og annað slíkt. Það er hugsanlegt að þeir sem leggja fyrir sig slíkt nám geti tekið á sig meiri skuldir á lánstímanum en engu að síður gert sér vonir um að afla tekna eftir að námi lýkur með góðum ávinningi. Það má hugsa sér að skólagjöld skipti ekki svo miklu máli fyrir þann hóp. Það mundi ekki draga úr möguleikum einstaklinganna til að sækja inn í það nám, jafnvel þótt viðkomandi einstaklingur hefði ekki góð efni. En hið sama á ekki við um nærri allar fræðigreinar eða menntun. Því er að mörgu að hyggja áður en menn geta leitt þessa umræðu til lykta.

Síðast þegar við ræddum þetta í Framsóknarflokknum fyrir flokksþingið í febrúar 2003 var niðurstaðan mjög skýr, að flokkurinn lagðist eindregið gegn almennum skólagjöldum. Þá var ályktað, með leyfi forseta:

„Almenn skólagjöld verði ekki tekin upp í grunnskólum og framhaldsskólum, né heldur í ríkisreknum háskólum.“

Það kom fram breytingartillaga á flokksþinginu um að milda tillöguna þannig að hún útilokaði ekki að tekin yrðu skólagjöld í framhaldsnámi á háskólastigi. Sú tillaga fékk ekki brautargengi og var reyndar vísað frá. Afstaðan var því mjög skýr.

Ég tel að menn séu bundnir af því að vinna samkvæmt þeim samþykktum og stefnum sem flokkurinn leggur. Það eru ekki í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar ákvæði um að víkja frá þessu eða samið um að taka upp skólagjöld. Við höfum ekki lagt það fyrir flokksstofnanir okkar að víkja frá stefnunni í stjórnarsáttmálanum. Ég lít svo á að sú stefna og það veganesti sem þingmenn flokksins hafa frá flokksþinginu sé skýrt.

Auðvitað ræður hver og einn þingmaður sjálfur hvernig hann tekur afstöðu eða greiðir atkvæði. Það er stjórnarskrárvarinn réttur sem enginn þingmaður afsalar sér. En að öðru leyti leitast þingmenn við að framfylgja þeirri stefnu sem menn undirgangast á sínum flokksvettvangi. Ég hef undirgengist þessa stefnu og tel mig ekki geta vikið frá henni jafnvel þótt málið sé þannig vaxið að ekki sé lagt til að taka upp skólagjöld í ríkisreknum háskóla heldur farin fjallabaksleið að því markmiði með því að breyta ríkisháskóla í einkaháskóla. Að mínu mati er það bara leið til að fara fram hjá ... (Gripið fram í: Ertu á móti málinu?) Mín niðurstaða er sú að ég styð ekki málið í þessum búningi. Ef málið felur í sér þá afstöðu að nám sem í dag er kennt hjá ríkisháskóla verði eftir breytingu boðið í einkaháskóla með skólagjöldum þá tel ég mig ekki hafa umboð flokksþingsins til að standa að því. Afstaða mín í þessu efni er alveg skýr og ég kom upp í þessa ræðu til að gera grein fyrri henni þannig að menn væru ekki í neinum vafa um hvar ég stend í þessum efnum.