131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:23]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson kom víða við í ræðu sinni, en gerði verulega að umtalsefni skólagjöld og vinnuplögg framtíðarhóps Samfylkingarinnar. Hann vitnaði til orða sem ég lét falla í ræðu minni áðan og taldi ýmislegt sem ég sagði til mjög stórra og merkilegra pólitískra tíðinda. Ég ætla að biðja hv. þingmann að gera ekki of mikið úr yfirlýsingum mínum, vegna þess að þær eru ekki nýjar af minni hálfu, þ.e. að ég vilji skoða málin í samhengi. Hins vegar er alveg skýrt að stefna Samfylkingarinnar er sú, eins og fram kom hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, að hún er á móti upptöku skólagjalda í grunnnámi á háskólastigi. Það er enginn vafi um það.

Ég hef hins vegar sagt að það sé vænlegra til árangurs í því að tryggja jafnrétti til náms og jöfn tækifæri til náms, að málið sé skoðað heildstætt en gera ekki eins og Sjálfstæðisflokkurinn framkvæmir stefnu sína um að koma á skólagjöldum, að laumast inn bakdyramegin eða fara fjallabaksleiðir til að koma þessu á. Það mun skekkja kerfið á alvarlegan hátt og koma í veg fyrir jafnrétti til náms. Þess vegna eiga menn að skoða málið heildstætt en ekki skoða skólagjöld eingöngu sem fjármögnunarleiðir fyrir skóla. Mér sýnist það vera gert núna og er stefna sem ég er algerlega andvígur. Ég tel að nálgast eigi þetta út frá því hvernig við getum tryggt jafnrétti til náms, hvernig við getum tryggt sem jafnasta stöðu allra háskóla. Eitt af því sem skekkir myndina í því er að skólagjöld eru innheimt í sumum háskólum hér á landi sem Lánasjóðurinn lánar til. Síðan verða auðvitað afföll af skólagjöldunum o.s.frv. og færa má rök fyrir því, sem er varla hægt í svo stuttu andsvari, að ríkisframlögin séu hærri að því leytinu til. Á móti koma svo flóknir útreikningar varðandi t.d. rannsóknafé o.s.frv. Málið er því ekki svona einfalt heldur þarf að fara yfir það frá A til Ö.