131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:29]

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Já. Ég verð að svara spurningu hv. þingmanns játandi. Það er ákveðinn misskilningur að stefna Sjálfstæðisflokksins sé að lauma inn einhverjum skólagjöldum. Það hefur aldrei verið stefna Sjálfstæðisflokksins að vera með einhvern feluleik, hvorki varðandi skólagjöld eða aðra hluti. En maður skyldi ætla að ef markmið Sjálfstæðisflokksins væri að koma á skólagjöldum í ríkisháskólunum að hv. þm. Einar Már Sigurðarson tæki þeim markmiðum og stefnumiðum fagnandi vegna þess að það er svo sannarlega í samræmi við stefnu Samfylkingarinnar í menntamálum.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur aldrei, hvorki fyrr né síðar, staðið í vegi fyrir því að tekin sé heildstæð umræða um skólagjöld. Þá skulum við líka bara ræða um skólagjöld. Þau skrásetningargjöld sem við munum fjalla um á næstu dögum eru ekki skólagjöld. (Gripið fram í: Hvað er það þá?) Það hefur komið fram í viðtölum við fulltrúa ráðuneytisins við stjórnendur allra háskólanna að skráningargjöldin sem við fjöllum um hér eru ekki skólagjöld. Skólagjöldum er ætlað að standa undir þeim kennslukostnaði sem til fellur vegna náms þeirra sem sækja það í háskólanum. (Gripið fram í: En skráningargjöldin?) Skráningargjöldin eru þjónustugjöld vegna skráningar í háskólanum. Við getum fjallað um þau síðar. En ef við værum að tala um skólagjöld get ég upplýst hv. þm. Einar Má Sigurðarson um það að meðalkostnaður á nemanda í Kennaraháskóla Íslands vegna kennslu sem þar er innt af hendi er í kringum 650 þús. og ef hann telur að 45 þús. kr. skráningargjald sé ætlað að mæta þeim kostnaði er það misskilningur, eins og fleira í málflutningi hv. þingmanns.