131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[17:58]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir rökunum fyrir því að stofna einkahlutafélag til að taka að sér þessa skóla. Er það vegna þess að metnaðarleysi hafi verið svo mikið að baki rekstri ríkisháskólans, Tækniháskólans, að orðið hafi að gera það?

Við höfum dæmi úr einkavæðingu velferðarþjónustunnar, eins og t.d. hjúkrunarheimilið Sóltún sem var búið til hlutafélag um. Rekstur þess er þannig að ef elliheimilið Grund fengi jafnmikið á hvern vistmann þar með sömu hjúkrunarþyngd fengi elliheimilið Grund 285 millj. kr. meira til síns rekstrar en það fær nú. Þar er borið fé á.

Hvernig mun þá vera háttað t.d. samningum við ríkið og þennan nýja skóla varðandi framlög? Þegar maður stofnar hlutafélög gerir maður það til þess að markaðsvæða verkefnið.