131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:02]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að með því að fara þessa leið varðandi rekstrarformið eru forsvarsmenn hins nýja skóla að velja leið sem þeir telja rétta og raunhæfa til þess að byggja enn frekar upp háskóla á alþjóðamælikvarða og er mjög samkeppnisfær. Þeir hafa fyrst og fremst hagsmuni nemenda og atvinnulífs að leiðarljósi. Það er það sem þeir gera. Það er ekki ágóðinn sem er til staðar, enda er það skýrt og klárt í viljayfirlýsingu sem ég undirritaði ásamt forsvarsmönnum hins nýja skóla, að ef einhver hagnaður verður af einkahlutafélaginu rennur hann beint inn í rekstur skólans með það að markmiði að efla og styrkja hið innra skólastarf. Að sjálfsögðu munu hlutirnir ganga þannig fyrir sig.