131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:03]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fátt kemst að í stuttu andsvari þannig að ég ætla að vinda mér beint að efninu.

Ég vil byrja á því að ítreka þá spurningu sem fram kom fyrr í dag hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni í sambandi við frumgreinadeildina: Fá þeir nemendur sem nú hafa hafið nám í frumgreinadeildinni að ljúka tækninámi sínu sem þeir fara í eftir frumgreinadeildina gjaldfrítt, án þess að innheimt verði af þeim frekari skólagjöld en nú? Þetta þarf að vera á hreinu.

Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra aftur, hún svaraði sumu áðan en alls ekki öllu: Hvað með verðmat á eignum og vild Tækniháskólans eins og það er í dag? Er það einskis metið, er það núll? Ef svo er, af hverju er það svo?

Að lokum: Finnst hæstv. ráðherra eðlilegt að taka tæknifræðina með þessum hætti út úr grunnnámi á háskólastigi og innheimta fyrir það skólagjöld í einkareknum háskóla meðan svo er ekki um annað nám? Tekur hæstv. ráðherra ekki undir að hér sé um mismunun að ræða á milli nemenda og greina?