131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:04]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Nei, út af þessu síðastnefnda get ég sagt strax að ég tel ekki um mismunun að ræða. Þegar við lítum til þess sem gerðist með Listaháskóla Íslands getum við ekki sagt að það sé ójafnrétti til náms á því sviði, eða telur hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson að það sé ekki jafnrétti til náms þegar kemur að listgreinum í landinu? Að sjálfsögðu er það þannig. Það hafa allir jöfn tækifæri til þess að stunda listgreinar í landinu. En það vill svo til að þar eru skólagjöldin á annað hundrað þúsund. Þannig var það með ríkið þegar við gengum til samninga varðandi það fyrirkomulag sem nú er við lýði í Listaháskóla Íslands. Það er enginn sem lítur á þau mál þannig að Listaháskólinn hafi ekki stuðlað að öðru en jafnrétti til náms í auknum og fjölbreytilegum tækifærum, sér í lagi þegar kemur einmitt að listnáminu.