131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:11]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli því að verið sé að lauma skólagjöldum bakdyramegin í háskólasamfélagið. Þetta er alveg hreint og klárt og ég er ávallt tilbúin til þess að taka umræðu um skólagjöld á heildstæðum, víðum og góðum grunni. Við sjálfstæðismenn höfum haft ákveðna stefnu varðandi skólagjöld. Við höfðum hana fyrir síðustu kosningar og við höfum ekki þurft að kalla á símastráka til þess að breyta stefnu okkar. Þannig er það hjá okkur, að við þurfum hvorki að breyta um kennitölur eða nöfn á flokknum til þess að horfast í augu við stefnu okkar sem hefur fylgt okkur í rúm 75 ár.

Ég ætla að reyna að hafa það þannig í mínu stutta andsvari að vera ekki að reyna að svara þessu nákvæmlega. Kennslusamninginn á eftir að gera, þannig að það sé skýrt. Þegar við komum að því að fara í kennslusamninginn og kennslusamningagerðina við háskólann verða að sjálfsögðu hafðar uppi miklar gæðakröfur og hugsanlega farnar að því leytinu til nýstárlegri leiðir en hafa verið farnar fram til þessa og sér í lagi með Bologna-ferlið í huga.