131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:12]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra hefur títt notað orðið samkeppni í umræðunum í dag og orðaði það svo áðan að skólarnir mundu bítast um nemendur, væntanlega þá á grundvelli faglegra gæða.

Á að skilja orð ráðherra svo í dag að hér sé um að ræða faglega gagnrýni á verkfræðideild Háskóla Íslands, að henni sé þörf á gagnrýni?

Nú er það svo að 100 virkir nemendur voru við nám í verkfræðideild Háskóla Íslands á síðasta skólaári án þess að kæmi til greiðslna frá ríkinu. Telur ráðherra þetta viðunandi samkeppnisstöðu verkfræðideildar Háskóla Íslands þegar annar skóli verður kominn til að keppa um nemendur? Og hyggst ráðherra beita sér fyrir bættri stöðu verkfræðideildar Háskóla Íslands í væntanlegri samkeppni við einkaskólann?