131. löggjafarþing — 51. fundur,  7. des. 2004.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[18:13]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Ég vil undirstrika að verkfræðideild Háskóla Íslands hefur staðið sig afar vel fram til þessa bæði í kennslu og í framboði á því efni sem hún hefur fram að færa, hvort sem það er í gegnum kennara, prófessora eða aðra sem hafa komið að verkfræðimenntun í gegnum tíðina hjá Háskóla Íslands. Það er afskaplega þýðingarmikið.

Ég sé ekki að það eigi að gilda annað um verkfræðina en til að mynda lögfræðina og viðskiptafræðina, þar sem aukin samkeppni á því sviði hefur leitt til þess að við sjáum meiri grósku í öllum háskólum, Háskóla Íslands, Bifröst, Háskólanum í Reykjavík og líka fyrir norðan, af því að sú samkeppni var sem við erum að berjast fyrir. Ég vona að hv. þingmenn, sér í lagi Samfylkingarinnar, fari að sjá ljósið og átti sig á því að samkeppnin kemur til með að nýtast menntakerfinu og menntasamfélaginu öllu. Samkeppni er af hinu góða. Það hafa allir bent á það undanfarna daga, sér í lagi atvinnulífið sem veit hvaða þörf og hvers konar þörf er á menntuðu fólki innan lands.