131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Náms- og starfsendurhæfing fyrir geðsjúka.

[10:03]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur að hér er um að ræða samstarfsverkefni sem fór af stað á sínum tíma á vegum Fjölmenntar annars vegar og Geðhjálpar hins vegar um starfsendurhæfingu og nám sem tengist málefnum geðsjúkra. Þannig er upphafið að þessu máli öllu saman, og í kjölfarið og á sínum tíma var gerð úttekt á þessu verkefni þar sem í ljós kom að þörfin er nokkuð brýn. Ég held að það sé ljóst að hún er brýn en síðan hafa málin þróast á þann veg að reynt var að láta þetta halda áfram í þeim farvegi, þ.e. á milli Fjölmenntar sem hóf þetta nám og Geðhjálpar, þessara tveggja aðila sem hófu þetta ágæta verkefni. Að því leytinu til er ljóst að engir samningar voru gerðir á milli ráðuneytanna sem koma að þessu máli núna og eru að reyna að leysa þetta, félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og menntamálaráðuneytis, þannig að menn hafi það líka á hreinu. Það er líka alveg hreint og klárt að þjónustusamningur menntamálaráðuneytisins við Fjölmennt er í gildi, og Fjölmennt hefur verið falið það hlutverk að sinna fræðslumálum fatlaðra en í þeim samningi er enginn greinarmunur gerður á einstökum hópum fatlaðra.

Eins og kom fram í máli hv. þingmanns hafa farið fram viðræður milli Fjölmenntar og ráðuneytisins. Því miður hefur ekki enn náðst niðurstaða í þessu máli en engu að síður vil ég varpa ljósi á það að við höfum rætt um þetta, ég og heilbrigðisráðherra, með það auðvitað að markmiði að reyna að leysa málið. Ég vil einnig geta þess að í sumar voru að mínu frumkvæði settar til viðbótar í verkefnið 6 millj., þ.e. 2 millj. frá menntamálaráðuneyti, 2 millj. frá heilbrigðisráðuneyti og 2 millj. af ráðstöfunarfé ríkisstjórnarinnar.