131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Náms- og starfsendurhæfing fyrir geðsjúka.

[10:15]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég tek undir að um mikilvægt mál er að ræða. Málið var rætt í ríkisstjórn á haustdögum. Þá voru gerðar ráðstafanir til þess að halda starfseminni áfram til áramóta og einnig var rætt um hvernig vista ætti starfið. Niðurstaðan varð sú að eðlilegt væri að það væri viðauki við þjónustusamning Fjölmenntar og menntamálaráðuneytisins. Síðan hefur hæstv. menntamálaráðherra unnið að málinu. Mér er kunnugt um það og við höfum verið í sambandi vegna málsins. Stefna heilbrigðisráðuneytisins er að þjóna geðfötluðum í samfélaginu eftir því sem kostur er, forðast stofnanavistun þeirra eftir því sem mögulegt er og ég tel það mjög áríðandi. Ég tel því mjög áríðandi að niðurstaða fáist í málinu og mun vissulega hafa samstarf við hæstv. menntamálaráðherra um það.

Málið er í þessum farvegi og ég vona svo sannarlega að við náum um þetta niðurstöðu. Heilbrigðisráðuneytið vill fyrir sitt leyti stuðla að því.