131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Náms- og starfsendurhæfing fyrir geðsjúka.

[10:19]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil, eins og fleiri hafa gert, þakka fyrir þessa mikilvægu og brýnu umræðu. Það gera sér allir grein fyrir mikilvægi þessa ágæta verkefnis.

Ég undirstrika að verkefnið hófst að frumkvæði Fjölmenntar og Geðhjálpar og er það afar gott. Það er þjónustusamningur í gangi við Fjölmennt upp á 150 millj. kr. á ári. Þar er reyndar enginn greinarmunur gerður á fötluðum og því ósköp eðlilegt að Fjölmennt hafi hafið samstarf við Geðhjálp sem hefur skilað miklum árangri. Til viðbótar hafa bæst við 6 millj. kr. sem ríkisstjórnin samþykkti á haustmánuðum. Þær hafa því miður ekki dugað og það liggur fyrir og er alveg ljóst að við verðum að leysa málið.

Málið er í ákveðnum farvegi, eins og ég kom inn á áðan og hæstv. heilbrigðisráðherra líka, og ég vil ekki meina að það hafi verið notað sem afsökun að málið væri þvert á þrjú ráðuneyti, síður en svo. Mér finnst frekar jákvætt að það er ekki bara þverpólitísk samstaða um svona mál heldur sé líka komið af fagmennsku innan ráðuneytanna þriggja, félagsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis, að borðinu og málin rædd. Mér finnst það þýðingarmikið, það er engin afsökun en mér finnst skipta máli að við ræðum málin heildstætt og reynum að leysa menntunarmál geðsjúkra sem fyrst.