131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Rannsóknarstofa heilsugæslunnar í Reykjavík.

227. mál
[10:28]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Á síðustu missirum hefur þess verið gætt að ríkisstofnanir hafi í auknum mæli tekið inn verkefni sem þær hafa áður útvistað til einkaaðila. Einnig hefur borið á því að ríkisfyrirtæki hafi samið við aðra ríkisstofnun um að taka yfir verkefni sem áður voru í höndum einkaaðila. Þá eru dæmi þess að ríkisfyrirtæki séu í beinni samkeppni við einkaaðila um þjónustu og verkefni og hafi í krafti stöðu sinnar tekið yfir verkefni sem einkaaðilar hafa sýnt áhuga á og jafnvel keppst um að taka að sér.

Það sem eru þó sýnu verst eru ábendingar um að ríkisfyrirtæki hafi hreinlega stolið viðskiptahugmyndum sem einkaaðilar hafa kynnt þeim og gert þær að sínum. Þau hafa þannig brotið trúnað við viðkomandi aðila sem hefur leitað til stofnunarinnar í góðri trú. Þetta atriði er þó efni til síðari umræðu hér á hinu háa Alþingi.

Með þessi dæmi í huga er ekki furða að illa gangi að hemja rekstur ríkisins. Með þessari hegðan ríkisfyrirtækja standa stjórnvöld beint eða óbeint að því að þrengja að starfsemi einkaaðila í landinu í stað þess að hlúa að þeim og styrkja og skapa þeim eðlileg vaxtarskilyrði. Sú þróun stríðir jafnframt gegn stefnu ríkisstjórnarinnar.

Ástæða þess að ég tek þetta mál upp í fyrirspurnatíma er að á síðasta vori lagði heilsugæslan í Reykjavík niður rannsóknarstarfsemi sína en samdi án undangengins útboðs við aðra ríkisstofnun, Landspítala – háskólasjúkrahús, um framkvæmd rannsókna á hennar vegum. Heilsugæslan hafði áður útvistað hluta af rannsóknarstarfsemi sinni til einkaaðila með samningi þar um. Þessi háttur stríðir gegn innkaupastefnu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var í ríkisstjórninni á árinu 2002. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á framkvæmd innkaupa, þannig að tryggt verði að öll opinber innkaup séu hagkvæm, opin, ábyrg og sanngjörn. Tilhögun innkaupanna miði að því að efla samkeppni á markaði. …

Með því að fela einkaaðilum tiltekin verkefni er hægt að ná fram markmiðum um hagræðingu, aukna samkeppnishæfni og auka fjölbreytni þjónustunnar sem byggir upp þekkingu í þjóðfélaginu og nýtist öðrum aðilum á markaði. Innkaupastefnan nær því einnig til þess að bjóða út verkefni eða rekstrarþætti sem nú eru hluti af ríkisrekstri.“

Þessi stefna endurspeglast jafnframt í nýrri innkaupastefnu heilbrigðisráðuneytisins 2003–2006 þar sem segir m.a. að útboð á þjónustu og rekstrarþáttum skuli aukast og tekið verði í auknum mæli upp útvistun þátta sem ekki snúa beint að kjarnastarfsemi stofnana. Jafnframt segir í sama skjali, með leyfi forseta:

„Innkaup á sérfræðiþjónustu fari fram að undangenginni þarfagreiningu og útboði.“

Eftir að ég lagði fyrirspurn mína fram á hinu háa Alþingi, kom fram í fréttum að rannsóknarstofan í Mjódd sem hafði samning við heilsugæsluna um framkvæmd rannsókna um langt árabil og missti viðskiptin í kjölfar samnings heilsugæslunnar við LSH, hefur kært ákvörðun heilsugæslunnar í Reykjavík til samkeppnisráðs. Niðurstaða er ekki fengin í því máli.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra: Hvað réð því að ekki var farið að stefnu heilbrigðisráðuneytis um útboð við kaup á sérfræðiþjónustu þegar rannsóknarstofa heilsugæslunnar í Reykjavík var lögð niður sl. sumar og samningur gerður við Landspítala – háskólasjúkrahús um að spítalinn tæki við rekstri hennar?