131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Rannsóknarstofa heilsugæslunnar í Reykjavík.

227. mál
[10:35]

Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):

Virðulegi forseti. Ég þekki forsögu þessa máls og bendi aftur á að framgangur málsins er ekki í samræmi við innkaupastefnu ráðuneytisins varðandi kaup á sérfræðiþjónustu. Ég geri því verulegar athugasemdir við þetta. Ég minni jafnframt á stefnu ríkisstjórnarinnar í innkaupamálum sem er í þá veru sem ég las áðan að „með því að fela einkaaðilum tiltekin verkefni er hægt að ná fram markmiðum um hagræðingu, aukna samkeppnishæfni og auka fjölbreytni þjónustunnar sem byggir upp þekkingu í þjóðfélaginu og nýtist öðrum aðilum á markaði“.

Með þessari ákvörðun hefur heilbrigðisráðuneytið í rauninni tekið ákvörðun um að leita ekki leiða til þess að fá ákveðinn samanburð varðandi rekstur ríkisstofnana annars vegar og einkaaðila hins vegar. Ég bendi á að hæstv. heilbrigðisráðherra sagði nýverið í umræðu á hinu háa Alþingi að heilsugæslan í Lágmúla, sem er einkarekin, væri ein best rekna, afkastamesta og hagkvæmasta heilsugæslustöðin sem rekin er í landinu, sem bendir ekki til annars en að það sé hagkvæmt að semja við einkaaðila. Það sama á einnig við um heilsugæsluna í Salahverfinu. Þegar hún fór í útboð kom í ljós að fimm aðilar buðu í reksturinn og að tilboð þess aðila sem fékk verkefnið var lægra en mat ráðuneytisins sjálfs varðandi kostnaðarmat.

Síðan er eitt atriði í viðbót sem ég vil líka benda á að í samningi Landspítalans og heilsugæslunnar gefur Landspítalinn mestan afslátt á þeim þáttum rannsóknarstarfsemi sem einkaaðilar hafa með höndum. Hins vegar er minni afsláttur, afar lítill afsláttur gagnvart þeim þáttum sem Landspítalinn hefur einokunarstöðu á. Þetta sýnir að samkeppni leiðir til hagkvæmari niðurstöðu fyrir ríkið sem kaupanda á þjónustu jafnframt því sem hægt er að gera samanburð á þjónustu.

Ég er þeirrar skoðunar að þarna hafi verið kærkomið tækifæri fyrir heilbrigðisráðherra að fara eftir innkaupastefnu sinni og ná fram meiri hagkvæmni í rekstri og meiri tækifærum til samanburðar.