131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Rannsóknarstofa heilsugæslunnar í Reykjavík.

227. mál
[10:37]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég undirstrika það og endurtek að þessar ráðstafanir voru gerðar við mjög sérstakar aðstæður. Ég taldi ekki hagkvæmt að setja upp nýja, stóra rannsóknarstofu í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg þegar önnur rannsóknarstofa með gífurlega umframafkastagetu var hinum megin við götuna. Það hefur í rauninni ekkert með stefnu ráðuneytisins að gera, hún er alveg óbreytt varðandi það að við leitum útboða ef okkur finnst það hagkvæmt. Það er stefna okkar. Við höfum gert það í takmörkuðum mæli að vísu, við gerðum það í Salahverfinu í Kópavogi. Það útboð hefur reynst ágætlega og við horfum auðvitað á reynsluna af því. Í Lágmúlanum er þjónustusamningur. Mig minnir að sú þjónusta hafi ekki verið boðin út á sínum tíma, útboðið í Salahverfi var nýjung. Þar höfum við fengið verðmæta reynslu af útboði í þessum efnum og við munum horfa á það í framtíðinni. En aðalatriðið er hagkvæmnin og að reyna að nýta þá peninga sem við höfum handa á milli sem best.