131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu.

168. mál
[10:48]

Fyrirspyrjandi (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki vel gert gagnvart hæstv. ráðherra að spyrja hann um svona sundurliðun á tölum, það er ekki nokkur leið að henda reiður á tölunum þó að ráðherrann hafi gert grein fyrir þeim hér í ræðu sinni. Það var ekki vel gert. Meginmálið í ræðu og svari hæstv. ráðherra er náttúrlega það sem hann sagði í upphafi ræðu sinnar, að þetta væru 3–4 þús. manns af íbúafjöldanum á höfuðborgarsvæðinu sem ekki njóta heimilislæknis eða aðgengis að heilsugæslustöð. Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, þetta er verulegur árangur sem náðst hefur og því ber auðvitað að fagna.

Þetta var meginmálið í svari ráðherrans og gott að vera búin að fá það fram sem segir mér að til viðbótar því sem stendur til að byggja vantar ekki nema eins og eina heilsugæslustöð, hefðbundna að stærð, til að sinna íbúafjöldanum í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu til fulls.

Hins vegar kom jafnframt fram í svari ráðherra að tölurnar ná ekki til Garðabæjar, Hafnarfjarðar og Álftaness sem teljast jú til höfuðborgarsvæðisins. Ég hefði kosið að fá þær upplýsingar fram þó að þær séu ekki hér akkúrat núna. Ég geri ekki ráð fyrir að hæstv. ráðherra hafi þær á takteinunum. Svo heyrist mér líka að með þessari nýju heilsugæslustöð í Salahverfi séu enn einir 5 þús. íbúar sem áfram vantar heimilislækni en að Voga- og Heimahverfisstöðin muni dekka þörfina í því hverfinu.

Loks vil ég ítreka, herra forseti, það sem kom fram í niðurlagi svars hæstv. ráðherra varðandi fjölgun koma á heilsugæslustöðvarnar, þær eru fyrst og fremst til marks um aukna og betri þjónustu og eflda þjónustu heilsugæslunnar. Meðal annars sagði hæstv. ráðherra að það væri vegna þess að verið væri að flytja þjónustu frá bráðavöktunum (Forseti hringir.) sem segir líka að við erum að þjónusta fólk á hagkvæmari hátt.