131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu.

168. mál
[10:50]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Herra forseti. Ég undirstrika að verulegur árangur hefur náðst í starfsemi heilsugæslunnar hér undanfarin ár og ég fullyrði að aðgengið hefur batnað.

Spurningum var beint til mín hér, fyrst hvort ég hefði tekið ákvörðun um rekstrarform hinnar nýju stöðvar í Voga- og Heimahverfi. Ég hef ekki tekið hana enn þá en ég geng að því máli með opnum huga. Ég hef líka verið að skoða með hverjum hætti við gætum endurnýjað samninga við sjálfstætt starfandi heimilislækna samkvæmt þeirri viljayfirlýsingu sem við skrifuðum undir á sínum tíma. Við höfum verið að skoða þessi mál í ráðuneytinu og þurfum að taka ákvörðun innan tíðar um þau.

Varðandi það hvenær stöðin verður komin í fulla notkun — það á að skrifa undir verksamninga næsta föstudag og ég vonast til að þær áætlanir standi sem eru um að koma henni í gagnið á næsta ári og að hún komist í fulla notkun í framhaldi af því.

Varðandi svo aftur áform um framhaldið erum við að undirbúa að koma upp annarri heilsugæslustöð í Hafnarfirði. Þar kreppir skórinn. Síðan þarf að laga aðstæður heilsugæslustöðvarinnar í Árbæ. Það er verkefni sem hefur beðið en það þarf að laga aðstöðu þar.

Varðandi Salahverfið er það ekki fullbyggt enn þá en þegar það verður er áætlað að þar verði 10 þús. manns en þar eru tæplega 6 þús. manns eins og stendur núna.

Ég endurtek að það er áríðandi að halda þessari uppbyggingu áfram.