131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Samræmt gæðaeftirlit með háskólum.

283. mál
[10:53]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ólíkar leiðir til æðri menntunar, fjölbreytni menntunartækifæra, fjölgun nemenda á háskólastigi, fjölgun háskóla og efling háskólastigsins kallar allt á aukna umræðu um mat á háskólanámi.

Það eru haldnar málstefnur og málfundir um háskólastigið í ríkum mæli þessa dagana. Mér er kunnugt um að hæstv. menntamálaráðherra er að fara að tala á málþingi í dag sem fjallar um stjórnun háskóla. Haldnar hafa verið mjög fínar ráðstefnur og málþing í Háskóla Íslands síðustu vikur og missiri sem fjalla um skilgreiningar ólíkra skóla, t.d. á háskólastigi. Nýlega var dreift á Alþingi þingsályktunartillögu frá hv. þm. Framsóknarflokksins, Hjálmari Árnasyni og Dagnýju Jónsdóttur, sem fjallar um skilgreiningu háskólastigsins. Sú tillaga gerir ráð fyrir því að stofnuð verði nefnd til að skilgreina stöðu og hlutverk skóla á háskólastigi, enda sé mikilvægt að menntastefna þjóðarinnar sé skýr og skilvirk svo að ekki ríki um það neinn efi að hver skóli þjóni þeim markmiðum sem honum er ætlað að þjóna.

Norðurlöndin hafa um langt árabil haft með sér náið samstarf á sviði háskólamenntunar þar sem Íslendingar hafa verið virkir þátttakendur. Það samstarf hefur einnig náð til stjórnvalda þessara landa almennt og hafa menntamálaráðherrar Norðurlandanna lagt áherslu á að efla beri þetta samstarf. Í því skyni að auka vægi tiltekinna þátta í þessu samstarfi hafa stjórnvöld samstarfslanda á þessu sviði útbúið ýmsar yfirlýsingar sem þau nú starfa eftir. Þar má nefna yfirlýsingar eins og Lissabon-samþykktina, nýgerða Reykjavíkur-yfirlýsingu og svo Bologna-yfirlýsinguna sem leggur áherslu á eflingu gæðamats á háskólastigi. Það er einmitt eitt þeirra atriða sem hefur verið í sérstökum fókus á þessum tíma umróts og breytinga á háskólastiginu.

Gæðamat og gæðaeftirlit er sameiginlegt hagsmunamál okkar allra, ekki síst auðvitað stúdenta og háskólasamfélagsins, en einnig okkar sem komum á einhvern hátt að mótun stefnu í námi á háskólastigi.

Það er nauðsynlegt að meta á faglegan, skýran og óvilhallan hátt hvort skólar hér á landi standist þær kröfur sem gerðar eru til náms í sambærilegum greinum í erlendum háskólum. Slíkt mat er jú í samræmi við stefnu menntamálaráðuneytisins um gæðamat í skólastarfi og ætti að tryggja að nemendur sem stunda nám í hinum ýmsu háskólagreinum hér á landi fái greiða inngöngu í framhaldsnám við góða háskóla hvar sem er í heiminum.

Í ljósi þessa alls, hæstv. forseti, hef ég lagt fyrir hæstv. menntamálaráðherra tvær spurningar. Þær eru eftirfarandi:

1. Með hvaða hætti hefur menntamálaráðuneytið gæðaeftirlit með háskólanámi og hvaða samræmdu kröfur liggja til grundvallar?

2. Hvaða fyrirmæli felast í Bologna-yfirlýsingunni um slíkt gæðaeftirlit og almennt um mat á gæðum háskólanáms?