131. löggjafarþing — 52. fundur,  8. des. 2004.

Aðgerðir í kjölfar verkfalls kennara.

333. mál
[11:12]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Þunnur var þrettándinn og mikil vonbrigði að heyra svar hæstv. ráðherra, að engar fyrirætlanir skuli vera uppi um að í ráðuneyti menntamála verði lagðar til samræmdar aðgerðir við sveitarfélögin í landinu þannig að mæta megi afleiðingum verkfallsins í hverjum einasta skóla á landinu með samræmdum og öflugum hætti.

Að sjálfsögðu er fjölgun skóladaga, aukin kennsla og fleiri skóladagar eina leiðin til að mæta með réttum og afdrifaríkum hætti afleiðingunum sem verkfallið hafði á skólagöngu barnanna. Niðurfelling eða frestun samræmdra prófa skiptir þar engu máli.

Vissulega eru þessi mál á forræði sveitarfélaganna en ráðuneytisins er ábyrgðin, ráðuneytisins er að leggja til samræmdar aðgerðir til að mæta afleiðingum verkfallsins líkt og hæstv. forsætisráðherra hafði gefið til kynna í umræðum á Alþingi fyrr í haust að menntamálaráðherra mundi gera. Nú hefur komið á daginn að í því ágæta ráðuneyti eru engar fyrirætlanir uppi um að leggja til við sveitarfélögin hvernig þau eigi að mæta afleiðingum verkfallsins. Auðvitað á að þrýsta á sveitarfélögin af öllu afli að þau beiti sömu aðferðum og mæti afleiðingunum með sama hætti, og auðvitað á að leggja þeim til aukið fjármagn þannig að þeim sé öllum gert kleift að mæta afleiðingunum, ekki bara þeim stóru og öflugu, heldur öllum sveitarfélögum á landinu. Um það snýst þetta mál að öllum börnunum, rúmlega 4.500, öllum þessum tíu árgöngum sé bættur skaðinn með samræmdum hætti.

Hæstv. ráðherra svarar því að svo verði ekki gert af hálfu ráðuneytisins og það eru mikil vonbrigði. Slíkt er vont að heyra því skaðinn á skólagöngu barnanna er verulegur. Afföllin á kennsludögum og skóladögum í haust urðu svo mikil að þá fór yfir ein og og hálf milljón skóladaga í súginn. Það er því á ábyrgð hæstv. ráðherra að mæta (Forseti hringir.) því með ábyrgum hætti.