131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:32]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Kristjáni Möller, fyrir að koma með þetta mál hér til umræðu. Það er vissulega þarft að taka á dagskrá í þinginu umræður um atvinnuástand byggða þegar veruleg áföll verða, núna vegna þess að rekstur Kísiliðjunnar við Mývatn hefur lagst af, og ræða þá um framtíðaratvinnuhorfur á svæðinu.

Kísiliðjunni var lokað þann 1. desember eftir nær fjögurra áratuga starfsemi og við það misstu 30 starfsmenn vinnu sína og Skútustaðahreppur missir með þessu u.þ.b. 30% af tekjum sínum. Um hríð hafði verið stefnt að því að setja á fót nýtt fyrirtæki um framleiðslu á kísildufti og höfðu flest sveitarfélög á þessu landsvæði lýst sig tilbúin til að leggja fram allt að 150 millj. kr. í það fyrirtæki. Áætlað var að kæmist kísilduftverksmiðjan á laggirnar mundu 20–30 manns fá þar störf. Allt er það nú í algjöru uppnámi eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra áðan. Þá hefur einnig verið kannaður sá möguleiki að reisa lífmassaverksmiðju sem ynni etanól úr lífrænum úrgangi. Áætlað var að slík verksmiðja gæti skapað 10 störf.

Það er óhjákvæmilegt að stjórnvöld taki með heimamönnum á þeim vanda sem skapast hefur í atvinnumálum á svæðinu. Stjórnvöld hljóta að þurfa að bregðast við svo alvarlegu áfalli í atvinnumálum á einu svæði. Því hefur þess verið vænst að Byggðastofnun og jafnvel Vinnumálastofnun legðu heimamönnum lið við að leita nýrra atvinnutækifæra. Möguleikar Mývatnssveitar eru miklir í ferðaþjónustu vegna mikillar náttúrufegurðar, fjölbreytts fuglalífs og jarðvarma sem jafnframt býður upp á heilsutengda endurhæfingarþjónustu.

Því miður blasir atvinnuleysið við eins og mál hafa nú þróast og það hefur margfeldisáhrif á atvinnu- og byggðaþróun um alla Suður-Þingeyjarsýslu. Bæjarmálafélag Frjálslynda flokksins á Húsavík hefur á þessu hausti tvisvar ályktað um þetta mál. Þar segir m.a, með leyfi forseta.:

„Fyrirsjáanlegt er, að það hafi alvarlegar afleiðingar á atvinnu- og byggðaþróun um alla Suður-Þingeyjarsýslu og má sem dæmi um það nefna að Mánafoss er hættur (Forseti hringir.) strandsiglingum frá Húsavík. Bæjarmálafélag Frjálslynda flokksins lýsir vonbrigðum með ótrúlegt sinnuleysi og tómlæti stjórnvalda í þessu máli. “