131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:38]

Þuríður Backman (Vg):

Herra forseti. Allt frá því að kísilgúrverksmiðjan var stofnuð 1967 var ljóst að um takmarkaðan framleiðslutíma gæti orðið að ræða þar sem vinnsla á kísilþörungum sem pumpað var upp af botni Mývatns væri viðkvæm út frá náttúruverndarsjónarmiðum og þá sérstaklega á svæðum utan Norðurflóa. Breytingar á eignarhaldi og hugmynd um að breyta framleiðslunni yfir í kísilduft í stað kísilgúrs urðu til þess að íbúar og starfsmenn við verksmiðjuna hafa búið við aukið öryggisleysi undanfarin sex ár. Fólki hefur verið haldið volgu og því lofað áframhaldandi starfsemi í verksmiðjunni.

Nú síðast í nóvember átti allt að vera að koma, allt væri að smella saman varðandi fjármögnun á nýju fyrirtæki til vinnslu á kísildufti. Þetta reyndust falsvonir og þar hafa ýmsir utanaðkomandi og að mörgu leyti óviðráðanlegir þættir ráðið endalokum starfsins. Verksmiðjunni hefur verið lokað, fólk hefur misst atvinnuna í því fyrirtæki sem hefur borið uppi atvinnu í heilu sveitarfélagi. Allt að 80 manns hafa nú misst atvinnu sína, þar af margir vegna afleiddra starfa.

Það sem ég tel mjög ámælisvert í öllu þessu langa ferli er að ekki skuli hafa verið reynt að styrkja aðrar atvinnugreinar eða stuðla að nýjum atvinnutækifærum í Mývatnssveit öll þau ár sem vitað var að til lokunar gæti komið, kísilgúrinn væri ekki óþrjótandi auðlind á botnssvæði Mývatns. Sveitin býr yfir ómældum náttúruauðæfum og miklum möguleikum til að nýta til atvinnusköpunar. Ferðaþjónusta er öflug atvinnugrein í Mývatnssveit og hana má efla enn frekar og fá af henni meiri tekjur til sveitarfélagsins. Því hvet ég hæstv. iðnaðarráðherra til að snúa sér (Forseti hringir.) að því að styrkja svæðið að óskum (Forseti hringir.) íbúanna og að þörfum svæðisins í heild.