131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:41]

Halldór Blöndal (S):

Herra forseti. Það var athyglisvert að hv. 5. þm. Norðaust., Steingrímur J. Sigfússon, skyldi hafa orð á því að fyrir 10 árum hafi legið fyrir að Kísiliðjunni yrði lokað. (Gripið fram í.) Á þeim tíma sameinuðust þeir um það, A-flokkarnir, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag, að beita sér fyrir því. Ég get nefnt þessi nöfn: Jón Sigurðsson, Björn Friðfinnsson, Steingrímur J. Sigfússon og Jón Gunnar Ottósson. Við vorum hins vegar margir sem töldum að halda ætti áfram vinnslu í námarekstri í Mývatni en því miður varð niðurstaðan sú að Kísiliðjunni var lokað. Við vitum nú og sjáum hvaða afleiðingar það hefur haft. Um þetta hafa orðið miklar umræður í gengum tíðina hér á Alþingi en nú stöndum við frammi fyrir þessu.

Ekki þýðir að fást um það. Nauðsynlegt er að reyna að skapa ný atvinnutækifæri í Mývatnssveit. Ég hef lagt áherslu á að efla Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn í tengslum við þann Vatnajökulsþjóðgarð sem nú er efnt til. Ég vil líka leggja áherslu á að efnt verði þar til rannsóknastarfsemi sem tengist jarðhita og loks vil ég lýsa þeirri skoðun minni að eins og nú er komið er einsýnt að ekki megi standa á fjármagni til að hægt sé að ráðast í lagningu vegar niður að Dettifossi um leið og umhverfismat liggur fyrir og það er tæknilega unnt til þess með þeim hætti að treysta og byggja upp ferðaþjónustu árið um kring. Ég álít að það sé fyrsta skrefið sem ríkið eigi að stíga nú, að tryggja að vegur niður að Dettifossi verði boðinn út á næsta ári og að fjármagn verði ekki látið tefja fyrir þeirri framkvæmd.