131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:43]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Hugur okkar er hjá þeim sem hafa misst atvinnu sína við Mývatn. Þar er nú stór hluti fólks á vinnumarkaði án atvinnu með öllum þeim hliðarverkunum sem það hefur fyrir samfélagið. Fyrirhuguð stöðvun kísilgúrvinnslu hefur vofað yfir í mörg ár og því óþarft að fólkið standi uppi atvinnulaust á einangruðum vinnumarkaði sem getur ekki tekið við því. Það er ótrúlegt að ráðherra iðnaðar- og byggðamála, sami einstaklingurinn, skuli ekki hafa beitt afli sínu meira en raun ber vitni, ekki síst ef haft er í huga að verkefni blasa við í Mývatnssveitinni.

Mývatnssvæðið er perla á heimsmælikvarða, jafnt vetur sem sumar. Þar blasa við tækifærin til uppbyggingar, verkefni sem sinna þarf í tíma og með fjármagni. Hvorki tími né fjármagn er hins vegar hagnýtt af skynsemi. Tíminn er látinn renna burt á meðan aðeins einn iðnaðarkostur er skoðaður, ágætur í sjálfu sér en haldlítill þegar á reynir. Ekki er hlustað á rök ferðamálafrömuðar Mývetninga, Ingva R. Kristjánssonar, sem sett hefur fram athyglisverðar hugmyndir um uppbyggingu heilsársferðaþjónustu við Mývatn, framkvæmd sem kostar umtalsvert fjármagn en stefnir ekki hinu viðkvæma umhverfi við Mývatn í hættu eins og ýmsir iðnaðarkostir gera.

Iðnaðarráðherrann er staurblind á annað en orkufrekan iðnað og gleymir því eins og vanalega að ráðherra byggðamála á að vera ráðherra alls landsins.

Virðulegi forseti. Enn og aftur stöndum við frammi fyrir óþolandi skeytingarleysi og virðingarleysi gagnvart lífsbaráttu og kjörum fólks á landsbyggðinni. Alltaf skal þeim komið á knén áður en eðlileg aðstoð við uppbyggingu er veitt ef hún þá er veitt á annað borð. Framferði ráðamanna gagnvart íbúum landsbyggðarinnar er ætíð það sama, sinnuleysi, skollaeyrum skellt, bent á aðra til að axla þá ábyrgð sem með réttu hvílir á herðum þeirra sem sækjast eftir að stjórna landinu.