131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Lokun Kísiliðjunnar.

[11:50]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (ber af sér sakir):

Herra forseti. Hv. 2. þm. Norðaust. vitnaði ranglega í orð mín og ég hlýt að bera það til baka að ég hafi sagt að það hafi legið fyrir í meira en 10 ár að kísilverksmiðjunni yrði lokað. Það sagði ég ekki. Ég sagði að frá þeim tíma hefði legið fyrir að sú gæti allt eins orðið niðurstaðan. Menn hlutu að reikna með því að sú gæti orðið niðurstaðan, eins og allt var í pottinn búið með útgáfu starfsleyfis og námaleyfis í byrjun tíunda áratugarins. Það var það sem ég sagði.

Síðan hlýt ég líka að mótmæla þeirri söguskýringu hv. þingmanns sem hér var flutt og bera hana til baka að það hafi verið A-flokkarnir, eins og hv. þm. orðaði það, sem hafi náð saman um að loka verksmiðjunni 1992 eða hvenær það á að hafa verið. Mér finnst með miklum ólíkindum að hv. þingmaður skuli nafgreina embættismenn sem ekki eru hér til að svara fyrir sig eða verja sig og sinn heiður. Það er ósmekklegt, það er óviðeigandi og það er dapurlegt að jafnþingreyndur maður og hv. þm. Halldór Blöndal skuli gera slíka hluti.

Hvað á það að þýða að nafngreina með þessum hætti inn í umræðuna embættismenn eins og Björn Friðfinnsson og Jón Gunnar Ottósson? (Gripið fram í: … horfa á mig.) Látum það nú vera þó að við séum nefndir til sögunnar, stjórnmálamennirnir sem vorum á þeim tíma, ég og hv. fyrrverandi þingmaður og hæstv. fyrrverandi ráðherra Jón Sigurðsson, gott og vel. Að spyrða síðan tvo nafngreinda embættismenn saman við stjórnmálamennina og búa til þá mynd að þarna hafi orðið eitthvert samsæri um að loka þessari verksmiðju er ósmekklegt og það er rangt. Hæstv. ráðherra fór hér rækilega yfir það hvað að lokum réði niðurstöðunni í því máli, að hinir erlendu aðilar, World Minerals, misstu áhugann á frekari rekstri verksmiðjunnar og voru ekki tilbúnir til að leggja þar í frekari fjárfestingar, hvorki til endurnýjunar eða opnunar nýrra námusvæða né vildu þeir tryggja sölu afurða lengur en fyrir lá í samningi.

Þetta eru borðleggjandi staðreyndir, og til hvers kemur þá hv. þm. Halldór Blöndal upp með ræðuflutning af því tagi sem hann gerði hér, sem er ósanngjarn og ómaklegur og þar á ofan fluttur við aðstæður þar sem aðrir hafa ekki aðstöðu til að svara fyrir sig eins og ég, sem hv. þm. var auðvitað sérstaklega að reyna að ráðast að? Ég mótmæli þessu, herra forseti, og vísa þessum ásökunum öllum til föðurhúsanna sem röngum og ómaklegum.