131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðslur yfir landamæri í evrum.

212. mál
[14:09]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni mál sem í sjálfu sér er ekki stórmál en að mörgu leyti er þetta prinsippmál og að sumu leyti veitir það ákveðna innsýn í vinnubrögð Evrópusambandsins. Það sem um er að ræða er að tryggja með lögum að gjöld vegna greiðslna í Evrópugjaldmiðlinum, í evrum, yfir landamæri verði hliðstæð þeim sem tekin eru fyrir greiðslur innan lands. Ástæðan fyrir því að þessi tilskipun var samþykkt í Evrópusambandinu var sú að þar á bæ vildu menn stuðla að viðskiptum á hinu Evrópska efnahagssvæði, á innri markaði Evrópusambandsins og hins Evrópska efnahagssvæðis, þó sérstaklega í Evrópusambandinu sjálfu. Að sjálfsögðu er þessu beint gagnvart stórum ríkjum í Evrópu, Þýskalandi, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu og öðrum ríkjum, og er það gert til að stuðla að því að löndin séu ekki lokuð af, ekki sé mismunað gagnvart viðskiptaaðilum í öðrum ríkjum, að þeir sem eru innan landamæra hvers ríkis búi ekki við betri kjör en viðskiptaaðilar í öðrum ríkjum. Þetta er gert til þess að stuðla að auknum viðskiptum innan Evrópusambandsins. Það er alveg skiljanlegur hlutur.

Við hefðum í sjálfu sér ekki þurft að taka þessa tilskipun upp. Það var ákveðið í EFTA-batteríunum að gera slíkt en við hefðum vel getað staðið utan þessa fyrirkomulags. Þar sem þessi ákvörðun var á annað borð tekin hefðum við líka getað farið ýmsar aðrar leiðir. Við hefðum t.d. getað tekið um það ákvörðun að sama regla skuli gilda um alla gjaldmiðla. Hvers vegna aðeins um evruna? Hvers vegna á hún að njóta forgangs? Hvers vegna ekki aðrir gjaldmiðlar sem Íslendingar nota í viðskiptum við útlönd? Þetta er augljóslega gert til að styrkja evruna sem gjaldmiðil og ég hef spurt: Hvers vegna er hið sama ekki látið gilda um alla gjaldmiðla?

Aðeins síðan um afstöðu okkar til mála af þessu tagi, hún er tvímælalaust á þann veg að við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum stuðla að því að fjarlægja óþarfahindranir í viðskiptum. Við höfum verið fylgjandi því að innleiða hvers kyns staðla í fjármálaheiminum og í viðskiptum sem auðvelda samskipti og viðskipti milli ríkja. Gagnrýni okkar á Evrópusambandið hefur fyrst og fremst verið af pólitískum toga, við höfum ekki viljað þurfa að kyngja því jafnframt að afsala okkur lýðræðislegu valdi, valdi um það hvernig við skipuleggjum samfélag okkar að öðru leyti. Gagnrýni okkar er fyrst og fremst á þá lund.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að orðlengja um þetta en vildi aðeins skýra hvers vegna nafn mitt er ekki á þessu nefndaráliti. Það er ekki vegna þess að ég telji þetta mál til ills, nema síður sé, ég hef í sjálfu sér ekkert við það að athuga en ég hefði viljað láta eitt ganga yfir alla gjaldmiðla, hefði ekki viljað láta þetta einvörðungu gilda um evruna.