131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðslur yfir landamæri í evrum.

212. mál
[14:17]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að þetta er mikið stílbrot í augum frjálshyggjumanna og meira að segja líka í mínum augum — ég er ekki endilega frjálshyggjumaður — enda eru þetta kvaðir á atvinnulífið að gera eitthvað sem er ekki endilega eðlilegt, vegna þess að það er jú ódýrara að senda greiðslur milli banka í sömu götu en að senda þær endanna á milli í Evrópusambandinu.

Verið er að taka þarna upp ákveðið jöfnunargjald og jöfnunargjald er alltaf þjóðhagslega óhagkvæmt og þar af leiðandi ætti maður að vera á móti þessu. Hins vegar er aðildin að Evrópusambandinu eða EES-samningnum það mikil hagsbót að menn kyngja þessu eins og öðru sem kemur frá Evrópusambandinu vegna þeirrar hagræðingar sem fylgir aðildinni.