131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðslur yfir landamæri í evrum.

212. mál
[14:21]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þó að hv. þingmaður treysti sér ekki til að spá um framtíð einstakra gjaldmiðla, sem út af fyrir sig er skiljanlegt, hljótum við að velta því fyrir okkur og taka það til umræðu, m.a. vegna þess að sú atvinnustefna sem flokkur hv. þingmanns hefur talað fyrir, t.d. í þekkingariðnaði og um starfsemi sem er í eðli sínu að mörgu leyti alþjóðleg og byggir á þekkingu og menntun er algerlega nauðsynlegt að við sköpum hér skilyrði fyrir slík fyrirtæki og slíka starfsemi til að þrífast.

Það hvernig dollarinn hefur verið að þróast á síðustu árum, er í 62 krónum hygg ég í dag en var í yfir 116 fyrir aðeins örfáum árum, hlýtur hver maður að sjá að er algerlega óviðunandi fyrir sprotafyrirtæki og þekkingariðnað, sem ég veit að hv. þingmaður hefur talað fyrir sem valkosti við þá stóriðjudollarapólitík sem hefur verið rekin á undanförnum árum með afdrifaríkum afleiðingum m.a. fyrir útflutningsgreinarnar.

Ég vil þess vegna spyrja hann hvort hann telji ekki fulla ástæðu til þess, ekki aðeins að laga okkur með þeim hætti sem hér um ræðir við evrusamstarfið heldur að ræða það hvort ekki sé nauðsynlegt skref í fyrirsjáanlegri framtíð að við tökum evruna upp sem gjaldmiðil.