131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðslur yfir landamæri í evrum.

212. mál
[14:23]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins minna á það sem er staðreynd í málinu að það tekur ekkert ríki upp evruna sem gjaldmiðil án þess að ganga í Evrópusambandið. Það er forsenda þess að menn taki upp evru og þangað erum við ekki að halda, alla vega ekki á næstunni og hugsanlega gerum við það aldrei.

Gengi gjaldmiðla heimsins er breytilegt. Ég er sammála greiningu hv. þingmanns hvað snertir afleiðingar þeirrar stóriðjustefnu sem hér hefur verið rekin. Bandaríkjadollari er veikur að öðru leyti á heimsvísu. Það er að hluta til rakið til efnahagsstefnu þeirrar stjórnar sem þar situr, en sem betur fer fyrir Bandaríkjamenn verða einhvern tíma stjórnarskipti. Bush Bandaríkjaforseti á að sönnu eftir fjögur ár og getur margt illt gert af sér enn, en síðan koma vonandi batnandi tímar í því ríki.