131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðslur yfir landamæri í evrum.

212. mál
[14:24]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er kannski ekki stórt mál sem við ræðum, en eins og komið hefur fram í umræðunni veitir það okkur örlitla innsýn inn í störf Evrópusambandsins og hvernig það svæði er hugsað. Verið er að innleiða í íslensk lög reglugerð um greiðslur yfir landamæri í evrum. Hugmyndafræðin sem býr að baki er að reyna að tryggja að sami kostnaður verði alls staðar á Evrópska efnahagssvæðinu þegar kemur að því að flytja evrur milli landa og innan landa.

Áður en lagt var af stað í þá vinnu var gerð tilraun með að flytja 100 evrur milli allra landanna og þegar upp var staðið var lítið sem ekkert eftir af þeim fjármunum, þ.e. flest hafði runnið til bankastofnana vegna kostnaðar. Menn sáu að þarna voru miklar hindranir hvað varðaði viðskipti á evrusvæðinu. Þess vegna var farið í þá vinnu að reyna að tryggja að kostnaður við flutning á evrum milli landa væri hinn sami og innan landa. Við, sem erum aðilar að EFTA og þau ríki sem eru með EES-samninginn í gildi við Evrópusambandið, þurfum að taka þetta upp.

En hugmyndafræðin er fyrst og fremst sú að reyna að jafna kostnað við flutning á peningum innan svæðisins. Þar kemur að þeim fyrirvara sem ég hef á því áliti sem hér liggur fyrir vegna þess að möguleikar okkar við að afgreiða málið og leiða þetta í lög eru a.m.k. tveir. Það er annars vegar sú leið sem hér er farin, þ.e. að tryggja að kostnaður við flutning á evrum innan lands sé sá hinn sami og milli landa, en við hefðum einnig átt möguleika á því að ákveða að kostnaður við flutning á evrum milli landa væri sá hinn sami og flutningur á krónum innan lands. Það hefði vissulega haft jákvæð áhrif fyrir út- og innflutning að mínu mati. Það hefði vissulega verið kjarabót fyrir útflutnings- og innflutningsgreinarnar sem ég tel að hefði átt að skoða mun betur en ákveðið var að fara ekki þá leið. Þá leið fóru Svíar en við virðumst hafa tekið þá ákvörðun að fara þá leið sem er að einhverju leyti kostnaðarminni fyrir bankakerfið, eða kannski ekki kostnaðarminni heldur verði möguleikar bankakerfisins að ná í tekjur meiri verði þessi leið farin en að fara þá leið sem Svíar fóru.

Gott og vel. Ég held að málið sé á hinn bóginn skref fram á við. Það ber líka að gæta þess að hér er ekki um háar fjárhæðir að ræða. Við erum að tala um að þetta taki fyrst til evruflutninga milli landa upp á 12.500 evrur en frá og með 1. janúar 2006 hækki fjárhæðin í 50.000 evrur. Það sem ég er aðeins að vekja athygli á og mér finnst skipta máli er að hér gæti verið um stefnumótun til lengri tíma að ræða og við eigum að leita allra leiða til þess að auðvelda viðskipti milli landa og innan EES-svæðisins og er mat mitt að við hefðum getað farið aðra leið. Það hefði að vísu þýtt tekjumissi fyrir bankakerfið en hefði á hinn bóginn leitt til þess að kostnaður við inn- og útflutning hefði minnkað. Ég tel að við hefðum átt að skoða frekar að fara þá leið en vil þó segja sem er að sú leið sem hér er farin er til bóta, þó að ég telji að það hefði mátt taka stærri og markvissari skref í þessum efnum við afgreiðslu málsins.