131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Greiðslur yfir landamæri í evrum.

212. mál
[14:29]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu enn eitt frumvarpið sem lýtur að Evróputilskipunum, um frumvarp um greiðslur yfir landamæri í evrum. Megintilgangur og meginmarkmið frumvarpsins er að tryggja að gjöld vegna slíkra greiðslna verði hliðstæð því sem gerist í greiðslum innan lands.

Ég vil koma því að í umræðunni að það eru ófáar Evróputilskipanir sem við á hinu háa Alþingi þurfum að afgreiða. Flestar eru saklausar en ein og ein virðist lauma með sér auknum kostnaði, bæði fyrir ríki og sveitarfélög. Í þessu tilviki geld ég varhuga við einu atriði og beini þessum orðum til allra sem sitja í efnahags- og viðskiptanefnd, að innflutningsfyrirtækin í landinu eru þau fyrirtæki sem færa evrur á milli landa.

Þegar innflutningsfyrirtæki kaupa vörur af fyrirtækjum í þjóðríkjum sem nota evru þurfa hin sömu fyrirtæki að millifæra evrur frá Íslandi til slíkra landa. Aftur á móti þegar útflutningsfyrirtæki flytja út vörur fá þau yfirleitt greitt í evrum inn á sína reikninga hér heima ef þau flytja út til evrulanda. Það sem gerist í störfum 200–300 útflutningsfyrirtækja hér á landi, virðulegi forseti, er að þau millifæra evrur til sinna birgja sem eru framleiðendur í landinu. Í þessu tilviki er verið að tala um að hámarksupphæðin verði fyrst 12.500 evrur og hækki síðan eftir 1. janúar 2006 upp í 50.000 evrur. Þannig er mál með vexti að það eru ótal greiðslur, og ég gat þess í störfum nefndarinnar, í viku hverri í íslenska bankakerfinu sem eru einmitt á þessu bili, svona frá 4.000 og upp í 40–50 þúsund evrur. Útflutningur á ferskum fiski er á þessum kalíber og svo má lengi telja.

Því beini ég þeim orðum til okkar sem erum í efnahags- og viðskiptanefnd að fylgjast vel með því eftir að þessi lög verða að veruleika, hvort breytingin muni valda því að kostnaður innflutningsfyrirtækja við að flytja evrur á milli landa muni lækka á kostnað útflutningsfyrirtækjanna þegar þau flytja evrur á milli íslenskra framleiðslufyrirtækja. Því er nú þannig farið í dag, miðað við hagstjórn landsins, virðulegi forseti, að útflutningsgreinarnar eiga undir högg að sækja. Gengisþróunin hefur verið þeim afleit. Því vil ég að við hv. þingmenn í efnahags- og viðskiptanefnd fylgjumst vel með þeirri þróun sem mun eiga sér stað eftir þessa breytingu.