131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[15:54]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat um það áðan að verkefnum hefði verið bætt á Fasteignamatið með lögum frá Alþingi og því hefði verið eðlilegt að breyta um skattstofn, fara úr brunabótamati yfir í fasteignamat. En það hefði kostað svo mikið fyrir þau örfáu ár sem eftir eru að það tæki því ekki.

Ég talaði um að við hefðum reynt að fara í eitt og hálft ár en það þótti ekki taka því vegna þess hve skatturinn er lágur. Þetta eru 100–150 kr. á hverja íbúð á ári. Það tekur því ekki að fara að skipta um kerfi fyrir það. Það tekur því ekki að taka hálft ár inn í reikninginn.

Nei, ég tek aftur gleði mína þegar ég hugsa um það sem hv. þingmaður minnti mig á, að við höfum náttúrlega gert alveg stórkostlega hluti. Ég nefni erfðafjárskattinn, sem kemur öldruðum til góða. Hann hefur verið stóreinfaldaður og lækkaður. Ég nefni fjármagnstekjuskattinn sem gefur ríkissjóði gífurlegar tekjur þrátt fyrir að skatturinn hafi stórlækkað.

Ég nefni hátekjuskattinn, sem er að hverfa og margir af mínum kjósendum eru afskaplega ánægðir með það. Nú geta þeir farið að vinna eins og menn. Ég nefni eignarskattinn, frú forseti, sem er horfinn og kemur vonandi aldrei aftur, nema einhverjir aðrir komist í ríkisstjórn.

Ég er því mjög glaður, mjög glaður þrátt fyrir að við tökum mánaðarlega hundrað kall í skatt eða 150 kr. skatt og framlengjum hann í tvö ár, sem ég er ekki glaður með, ég tek það fram. (ÖJ: Talaðu svolítið um Landspítalann.) Svo getum við rætt um aðhald og þá fer fyrst að verða skemmtilegt að hlusta á tal hv. þingmanna sem annars vegar tala um aðhald í rekstri ríkissjóðs og krefjast útgjalda í hinu orðinu.