131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[17:02]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þegar umræðunni var frestað áður en þingflokksfundir voru settir vorum við að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna. Það er svona angi af þeim skattahækkunarpakka sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á hinu háa Alþingi og stefnir að að afgreiða fyrir þingfrestun sem áætluð er í lok þessarar viku.

Ég finn mig knúinn til þess að taka þátt í þessari umræðu. Ég á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd. Þegar maður skoðar málið þá sést að það snýst reyndar um fjármögnun fyrirbæris sem kallast Landskrá fasteigna. Hugmyndafræðin er sú að leggja álögur á fasteignaeigendur fyrst og fremst og fjármagna þetta næstu árin. Ég held að ekki sé gróft að áætla að þetta muni skila 300 milljónum eða svo a.m.k. hvert ár um sig og einkanlega sökum þeirrar fasteignahækkunar sem nú gengur yfir samfélagið.

En okkur í efnahags- og viðskiptanefnd gekk reyndar mjög illa skilja var hvers vegna svona hugmynd sem fæðist í ríkiskerfinu og menn hrinda í framkvæmd, hugmynd sem sem átti kannski að kosta hálfan milljarð eða svo hefur núna hlaðið svo utan á sig að þegar þetta frumvarp var lagt fram þá ráðgerðu menn a.m.k. 2 milljarða í þetta verkefni. Menn hafa þegar eytt í þetta um það bil 1 milljarði og fyrstu hugmyndir sem fram komu þegar frumvarpið kom fram voru um að leggja um það bil 1.200 milljónir í þetta á næstu fjórum árum.

Sú hugsun sem ég vil koma á framfæri og benda á er að það virðist svo oft gerast að menn fara af stað með hugmyndir án þess að vera í raun búnir að hugsa til þess hvar þeir ætli að lenda málinu og hvar þeir ætla að enda málið og hver sé tilgangurinn með verkefninu. Það spélega við þetta mál er að þeir sem hafa a.m.k. á mannamótum og hátíðisdögum barið sér á brjóst og talið sig fánabera og boðbera skattalækkana og minnkandi ríkisútgjalda standa nú frammi fyrir því að meira að segja málgagnið þeirra Morgunblaðið segir í frétt 7. desember að útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu hafi aldrei verið hærri frá árinu 1980. Það endurspeglar kannski það að menn hafa gersamlega misst tökin á því hvernig ríkið þróast.

Landskrá fasteigna sem við ræðum nú felst að stærstum hluta í að skrá upplýsingar sem þegar liggja fyrir hjá sýslumönnum landsins, þ.e. í þinglýsingarbókum. Það er verið að færa þetta í eitthvert tölvukerfi. Sjálfsagt má nýta þessar hugmyndir til góðra verka eins og margar góðar hugmyndir sem menn fá og hafa áhuga á að hrinda í framkvæmd en menn gera kannski ekki. Ég er alveg sannfærður um það. En þessi hugmynd, þetta verkefni kostar 2 milljarða. Fyrstu hugmyndir voru um 2 milljarða en reyndar var slegið af á leiðinni, þ.e. 600 milljónir voru slegnar af. Þetta virtist því ekki vera betur úr garði gert en svo að þó að menn legðu af stað með 1.200 milljónir í kostnað þá gátu þeir á miðri leið slegið helminginn af. Þetta er ekki mjög trúverðugt. Þetta virðist ekki hafa verið mjög ígrundað þegar menn lögðu í hann. Það virðist ekki vera að menn hafi reiknað í botn hvað þeir ætluðu að gera. Og það er þetta sem er svo hættulegt þegar menn leggja af stað með hugmyndir sem þeir hafa engin tök á og svo fer hugmyndin í raun að verða partur af kerfinu. Þetta vefur utan á sig. Þegar frumvarpið kom fram var áætlað að eyða í þessa hugmynd 2 milljörðum.

Við ræddum fyrr í dag bæði um kísilverksmiðju í Mývatnssveit og samgöngur til Vestmannaeyja og ég held að það sé allt í lagi að upplýsa það að ég held að styrkurinn til reksturs Herjólfs á ári sé innan við 200 milljónir. Það lýtur að því að viðhalda þjóðvegi við sveitarfélag þar sem eru á fimmta þúsund íbúa. Það er allt í lagi að upplýsa um það hér að það hefur verið þrautin þyngri að fá einhverjar krónur til þess að mæta því til að mynda þegar Mánafoss hætti strandsiglingum sínum 1. desember. Það var þrautin þyngri að fá nokkrar milljónir til þess að taka við þeim flutningum sem nauðsynlegir eru sökum þess að skipið hætti og á það var ekki fallist nema bæjarstjórnin féllist á að hækka gjöld um 6%.

Þar eru menn að berjast fyrir grundvallaratriðum hvað varðar lífskjör og umgjörð íbúa landsins. En hér munar menn ekkert um að henda 280 milljónum hingað og þangað af því að þeir vilja bókfæra og skrá einhver verðmæti sem flest eru þegar skráð. En nú er verið að skrá þetta í eitthvert annað kerfi. Það er þetta sem er svo hættulegt, þ.e. að þegar svona hugmyndir fara af stað þá virðist enginn ráða við þær.

Hv. þm. Pétur Blöndal var mjög ærlegur þegar hann sagði — og ég held að í hjarta sínu sé hann mér sammála í þessu máli — hv. þingmaður reyndi jafnvel að koma þessum fjórum árum niður í eitt og hálft ár og vildi athuga hvort nokkur möguleiki væri á því að reyna að bjarga einhverju í þessu sérstæða máli. En það tókst ekki. Þetta þurfum við að hugleiða mjög vandlega.

Mig langar að lesa upp úr frumvarpinu upphaflega sem er kannski það skásta sem ég hef fundið um markmið og tilgang þeirrar vinnu sem þarna fer fram. Hér segir, með leyfi forseta:

„Sá undirbúningur“ — þ.e. sem hér er verið að tala um og reyna að vinna — „felst einkum í samræmingu á hugtakanotkun, kerfishönnun, forritun og kerfisprófun og síðar í skráningu upplýsinga í jarðahlutann og leiðréttingu á misræmi á skráningu einstakra jarða.“

Þetta er það sem ég er að benda á. Hér er verið að leggja af stað í verkefni og hefur verið lagt af stað í verkefni sem nú á að halda áfram með og þegar maður les þetta þá snýst þetta augljóslega ekki lengur um neitt annað en að viðhalda sjálfu sér. Hugmyndin sem af stað var farið með hefur sjálfsagt verið ágæt. Menn hafa algerlega misst tök á henni. Síðan fæðast nýjar hugmyndir um að nauðsynlegt sé að setja þetta inn í o.s.frv. og kostnaðurinn er að nálgast 2 milljarða eða áætlað er að hann verði sjálfsagt 2 milljarðar því að þó að þær hugmyndir sem hér eru uppi um að leggja í þetta 1.200 milljónir á fjórum árum hafi verið skornar niður í 600 þá er hugmyndafræðin líka sú að halda áfram að taka tekjur af fasteignaeigendum og þá í annars konar formi, hvort heldur það er þegar fasteignir eru keyptar og seldar þannig að fasteignasalar þurfi að innheimta þetta eða þegar menn sækja eftir upplýsingum o.s.frv. En hugmyndin er að halda þessu áfram.

Ég er að vekja athygli á þessu, þ.e. að menn virðast ekki hafa neina stjórn á því hvernig „báknið“ vex. Ég þori að fullyrða að þessum fjármunum megi eyða í mýmargt í okkar samfélagi, með fullri virðingu fyrir þessu verkefni sem er sjálfsagt ákaflega verðugt og mun einhvern tíma skila einhverju. En það eru mýmörg verkefni í þessu samfélagi sem þeir mættu ekki síður fara til. Á þessu, virðulegi forseti, vil ég vekja athygli.

Enn og aftur vil ég á það benda sem hér hefur oft verið bent á, að hér er bara einfaldlega um að ræða enn frekari álögur á landsmenn, ekkert annað. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur Blöndal, hefur viðurkennt það í ræðustól að hér sé um skattahækkunarfrumvarp að ræða.

Það er því kannski ekki nema von að Morgunblaðið birti það 6. desember að útgjöld ríkisins hafi aldrei frá árinu 1980 verið hærri sem hlutfall af landsframleiðslu og það er reyndar kannski besti mælikvarðinn á hvað ríkið er að taka stóran hluta af landsframleiðslunni til sín. Þess vegna verður að segja alveg eins og er að það virkar sem hjóm eitt þegar menn síðan í þessari umræðu berja sér á brjóst og segja: „Við erum mennirnir sem ætlum að lækka skatta og álögur á íbúa þessa lands.“

Það hefur einnig komið fram og mun koma fram væntanlega í umræðunni enn frekar á morgun að menn hafa verið að draga það saman að þær miklu skattahækkanir sem þessi ríkisstjórn hefur núna lagt á, þ.e. með álögum á einstaklinga vegna þjónustu og annarra hluta séu að skila ríkissjóði á tveimur árum, árunum 2004 og 2005, tæplega 8,2 milljörðum, tæplega 8,2 milljörðum eru þessar skattahækkanir að skila ríkissjóði í auknum tekjum og sú tala er fundin bara með útreikningum fjármálaráðuneytisins. Það er ekki eins og andstæðingar ríkisstjórnarinnar hafi fundið út þessa tölu, nei, síður en svo. Það er aðeins byggt á gögnum fjármálaráðuneytisins. Þar kemur fram að þær álögur sem lagðar hafa verið á landsmenn í formi alls konar hækkana og gjalda séu 8,2 milljarðar.

Hins vegar eru skattalækkunarhugmyndirnar sem nú liggja fyrir upp á rúmlega 5 milljarða, þ.e. á árinu sem er að líða, 2004, og árinu 2005, þannig að mismunurinn er u.þ.b. 2,5 milljarðar sem eru auknar tekjur fyrir ríkissjóð.

Þetta er sá veruleiki sem við ræðum þessi mál í og við erum að benda á og tala um að ríkisstjórnin hafi í reynd misst tökin á ríkisfjármálunum. Það er alveg hið sama og Seðlabankinn segir. Það er alveg hið sama og til að mynda hagfræðingur Landsbankans, sem kom fyrir efnahags- og viðskiptanefnd, segir. Þeir aðilar sem komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd töldu að lágmarksafgangur á fjárlögum ætti að vera 35–40 milljarðar. Þeir tala um mikið aðhaldsleysi í ríkisfjármálunum.

Þetta litla mál er náttúrlega bara dæmi um útgjöld sem vaxa af sjálfu sér og enginn virðist hafa tök á. Ég verð að segja alveg eins og er að ég skil vel að hv. þm. Ögmundur Jónasson sé fylgjandi þessum útgjöldum vegna þess að hann hefur þá pólitísku skoðun að hann telur að ríkið eigi að vera stór partur af hagkerfinu hverju sinni, eigi að taka stóran þátt til sín og þannig sé kannski hægt að hafa meiri stjórn á hagkerfinu en ella. Það eru bara hin grunnpólitísku viðhorf hans. Þess utan þykir hv. þingmanni sjálfsagt ekki verra að það tryggi líka fleiri störf opinberra starfsmanna. Þetta eru bara grundvallarsjónarmið og grundvallarviðhorf sem hv. þingmaður hefur og hann er algjörlega samkvæmur sjálfum sér þegar hann styður frumvarpið.

En ég vil leyfa mér að fullyrða hér að þetta eru ekki þau sjónarmið sem hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Pétur Blöndal, hefur kynnt sig með og sagst standa fyrir þegar hann hefur talað til almennings. Ég ætla ekki að vísa til þeirra þriggja hv. þingmanna sem jafnan er vísað til þegar skattahækkunarfrumvörpin eru rædd, þ.e. þeirra hv. þingmanna sem komu inn á þing sem skattalækkunarriddarar, ég ætla ekki að tilgreina þá í þessari umræðu. En að hv. þm. Pétur Blöndal skuli hafa sannfærst svo gersamlega af röksemdafærslu hv. þm. Ögmundar Jónassonar kemur manni verulega á óvart. Það kemur verulega á óvart vegna þess að viðkomandi þingmaður hefur kynnt sig og sagst standa fyrir allt öðrum sjónarmiðum í stjórnmálum en þessum.

Virðulegi forseti. Þá verður að nefna líka annað sem hefur komið skýrt fram í þessari umræðu, sem ég hafði ekki gert mér grein fyrir fyrr en öll þessi skattahækkunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar komu til umræðu, en hv. þm. Pétur Blöndal og sá meiri hluti á hinu háa Alþingi sem styður ríkisstjórnina, hefur talað fyrir þeirri pólitísku stefnumörkun að allir gjaldstofnar og allir skattstofnar skuli vera verðtryggðir á sama tíma og persónuafsláttur og bótafjárhæðir skuli ekki vera verðtryggðar. Þetta eru hinir sömu menn sem tala fyrir því á mannamótum að það sé nauðsynlegt að lækka skatta, skera niður útgjöld ríkissjóðs, draga úr bákninu, láta finna fyrir því að nú séu nýir menn við stjórnvölinn, nú sé tekið á málum, nú sé loksins búið að ná tökum á ríkisfjármálunum.

Þá kemur Morgunblaðið og segir: Útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu hafa aldrei verið meiri frá árinu 1980. Það er eins og að sjónarmið hv. þm. Ögmundar Jónassonar hafi algjörlega orðið ofan á hjá ríkisstjórninni. Ég vil, virðulegi forseti, óska hv. þingmanni til hamingju með að hafa snúið ríkisstjórninni svona gjörsamlega á sveif með sér. En ég verð eiginlega að lýsa því yfir einnig að þó að ég og hv. þingmaður eigum oft samleið í góðum málum eigum við ekki samleið í þessu máli. En það er vegna þess að sá sem hér stendur er samkvæmur þeim sjónarmiðum sem hann hefur sett fram og hv. þm. Ögmundur Jónasson er samkvæmur sínum sjónarmiðum, en aðrir eru það ekki.

Ég verð einnig að segja það, virðulegi forseti, að þegar maður fer yfir Landskrá fasteigna virkar þetta á mig sem einhvers konar gæluverkefni sem menn hafa gersamlega misst tökin á. Hugmyndin um að fara að skrásetja fasteignir er komin í 2 milljarða.

Sú var tíðin að sá hv. þingmaður sem nú situr í forsetastóli — sem á ekki möguleika á að svara fyrir sig og verður að virða það í þessari umræðu og gæta orða sinna í ljósi þess — hann reið hér um héruð í búningi ungliða Sjálfstæðisflokksins og talaði fyrir niðurskurði hvar sem hann bar niður í ríkisfjármálum. Hann er núna partur af þeim meiri hluta sem ekki hefur tekið jafnmikið til sín úr hagkerfinu og frá því á árinu 1980, en þá var hér við völd ríkisstjórn undir forustu Gunnars Thoroddsens, sem var reyndar ekki studd af öllum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. En það er athyglisvert í þessari umræðu að ríkisútgjöld hafa aldrei verið meiri en þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í forustu.

Þau tvö dæmi sem við höfum núna — og ber nú vel í veiði að hv. þm. Gunnar Birgisson skuli koma í salinn — eru hæstu dæmin þar sem ríkisvaldið hefur tekið meira til sín úr hagkerfinu en nokkru sinni, 1980 og 2004. Í báðum þessum tilvikum voru ríkisstjórnir leiddar af forustumönnum Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Og af því að hv. þingmaður kallar hér fram í þá eru þetta aðeins upplýsingar sem komu fram í Morgunblaðinu og rétt er að vísa til af því að hv. þingmaður hefur ekki verið í salnum meðan þessi umræða hefur farið fram.

Það sem ég hef viljað leggja til umræðunnar er þetta: Það ber að varast að fara af stað með hugmyndir sem menn sjá ekki fyrir endann á. Þessi litla hugmynd, um að skrásetja skuli allar fasteignir — ekki allan heiminn — er komin í 2 milljarða og sér ekki fyrir endann á. Þetta er einhvers konar gæluverkefni einhverra ráðherra, kannski til að vera enn frekar samkvæmir sjálfum sér. Kannski er ástæða til þess að velta því upp af því að eitt af þeim verkefnum sem Landskrá hefur nú verið falið eru verkefni tengd jarðalögum og um leið tengd landbúnaðarráðuneytinu, kannski er kominn tími til þess að færa verkefni þess ráðuneytis til annarra ráðuneyta. Það mætti til að mynda færa skólana yfir til menntamálaráðuneytisins, færa jarðirnar undir fjármálaráðuneytið og sameina atvinnuvegaráðuneytin. Það gæti kannski verið hægt að ná einhverjum sparnaði í ríkisrekstrinum við það að leggja niður landbúnaðarráðuneytið. Ég held að það hljóti að vera ein þeirra hugmynda sem menn velta fyrir sér í allri þessari umræðu, enda skilar landbúnaðurinn í dag ekki meiru en kannski svona rúmlega 1,5% af landsframleiðslunni. Það er því verðugt verkefni að menn velti fyrir sér að þeim þætti stjórnsýslunnar og ríkisvaldsins sé komið fyrir annars staðar, því það verður ekki sagt um skjólstæðinga landbúnaðarráðuneytisins að það séu þeir sem hafi haft hvað mest upp úr starfsemi sinni á undanförnum áratugum þó að þeir af einhverjum ástæðum, okkur ókunnum, hafi jafnan að mestu leyti stutt þá flokka, þ.e. bændur, sem nú fara með völd í ríkisstjórn.

En ég vildi bara velta þessari hugmynd upp í ljósi þess að við höfum verið að gagnrýna þær miklu skattahækkanir sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir að undanförnu og ég vísaði til í ræðu minni, að þær eru u.þ.b. 2,5 milljörðum hærri en þær skattalækkanir sem fyrirhugað er að ráðast í. Leikurinn sem leikinn er er að hækka fyrst skatta, gjöld og álögur og lækka þetta síðar. Þetta er sá veruleiki sem blasir við okkur þó að hér sé aðeins um eitt lítið frumvarp að ræða þar sem menn hafa misst tökin á sjálfsagt ágætri hugmynd sem einhver hefur velt upp og menn fallið fyrir og fengið síðan hið ágætasta fólk til þess að framkvæma. Sú litla hugmynd er komin í 2 milljarða. Þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um hvernig núverandi ríkisstjórn hefur gersamlega misst tökin á ríkisfjármálunum og af þeim sökum hafa Seðlabankinn, hagfræðingar og fleiri talað um hið mikla og ægilega aðhaldsleysi sem er á ríkisfjármálunum sem m.a. gerði það verkum að Seðlabankinn taldi sig knúinn til að hækka stýrivexti um 1%, sem hefur leitt til verulegrar hækkunar á gengi með tilheyrandi afleiðingum fyrir útflutningsgreinarnar.

Ég sá það í yfirlýsingu frá Samtökum atvinnulífsins í dag að þeir telja að þessi hækkun á genginu undanfarna daga þýði 15 milljarða tekjulækkun hjá útflutningsgreinunum. Það er nú ekkert minna. Það er því ekki lítið sem aðhaldsleysið í ríkisfjármálunum hefur í för með sér og ekki skrýtið að þessi mál séu tekin til rækilegrar umræðu á hinu háa Alþingi þegar menn fá eitt svona lítið dæmi, þetta er bara lítið dæmi um hvernig menn hafa misst tökin á þessu, lítið dæmi af mörgum þar sem lítil hugmynd er orðin að bákni í ríkiskerfinu.