131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[17:30]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki ætla ég að kveinka mér undan því þótt hv. þingmaður hafi viljað gefa ræðu minni einkunn en oft hefur hann komið í ræðustól og kveinkað sér undan því að hans eigin ræður hafa fengið einhverja einkunn hjá þeim sem hafa komið í andsvar.

Það kemur mér líka alveg gríðarlega á óvart að Landskrá fasteigna skuli vera grundvöllur kapítalismans. Ég spyr bara: Hvernig áttu viðskipti sér stað áður? Ég svara því einnig að áfram á að skrá í þinglýsingabækur, áfram á að vinna það sem hann talaði um, þykka doðranta og að skrifa með bleki. Þær skrár halda allar áfram. Þær eru unnar í tölvur ef það er málið. Ég vísa þessu náttúrlega bara út í hafsauga. Markaðskerfið hlýtur að fúnkera ef einhver vill selja og einhver vill kaupa, það þurfa ekki að vera sérstakar opinberar skrár á öllum eignum, ekki nema menn hafi sérstakan metnað til að skattleggja allar eignir sem mögulega er hægt að ná í og skrásetja.

Varðandi raunlækkun og raunhækkun komum við alltaf að sömu spurningunni: Hvenær tók ríkisstjórnin upp þá pólitísku stefnumótun að verðtryggja alla gjaldstofna og alla skattstofna? Síðan hvenær er þetta hin pólitíska stefnumótun? Hún hefur ekki verið gerð opinber en er afar athyglisverð. Á móti kemur að persónuafsláttur er ekki verðtryggður. Bótafjárhæðir eru ekki verðtryggðar. Skattstofnar og gjaldstofnar skulu verðtryggðir. Hv. þingmaður sem hefur farið mikinn í umræðu um (Forseti hringir.) skattalækkanir er leiðandi afl fyrir meiri hluta á þingi sem hefur aldrei tekið meira til sín úr (Forseti hringir.) landsframleiðslunni.