131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Skráning og mat fasteigna.

335. mál
[18:02]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Hér hefur nokkuð lengi staðið yfir fróðleg umræða og ég held að það liggi ljóst fyrir að ríkisstjórnin leggur upp með að taka inn nýjar tekjur og viðbótartekjur. En eitt vildi ég leggja inn í málin, bara til að fá nánari upplýsingar. Ég ætla ekki að fara að deila við formælendur þessa máls um hvort hér sé um lítinn skatt eða stóran að ræða. Upplýst hefur verið um hvaða tekjur er að ræða. Við breytinguna koma inn viðbótartekjur hvort sem menn tala um 100 eða 150 kr. á mánuði.

En þar sem gjaldið miðast við brunabótamat af húseignum og væntanlega fasteignamat af löndum, jörðum og öðru slíku (PHB: Nei.) Ekki það. (Gripið fram í.) Er brunabótamat á jörðum sem engin bygging er á? (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Það liggur í hlutarins eðli að verðmæti eigna hér á landi er metið eftir ákveðnum aðferðum og reglum. Það hlýtur líka að liggja í hlutarins eðli að þegar brunabótamat hækkar þá hækkar sá skattstofn sem prósentan er miðuð við. Þess vegna spyr ég: Telur hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar að þær tekjur sem hér er gert ráð fyrir séu vanáætlaðar, vegna verðþróunar á fasteignum?