131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda.

299. mál
[18:15]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér er kannski ekki stórt og um það ríkir nokkuð bærileg sátt í þinginu en eitt af því sem verið er að opna á og hefur komið á daginn er að innheimtuþóknun sjóðsins hefur ekki staðið algerlega undir innheimtukostnaði sem sjóðurinn hefur haft sökum þess að fyrirtæki hafa ekki greitt í sjóðinn. Það er því ljóst að verið er að hækka innheimtuþóknun sjóðsins og gera mögulegt að hækka úr 2% í allt að 4% vegna þess að kostnaður við innheimtu hefur verið meiri en gert var ráð fyrir. Hér er því verið að koma til móts við kostnað sem fallið hefur til vegna innheimtu og við, ég og hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Gunnar Örlygsson, flytjum af þeim sökum litla tillögu til að koma til móts við það að kostnaður hafi hækkað. Við erum að leita leiða til sparnaðar og erum með litla tillögu vegna þessa tiltekna máls. Við skrifum undir álit efnahags- og viðskiptanefndar með fyrirvara, en núverandi fyrirkomulag gerir ráð fyrir því að sex stjórnarmenn sitji í stjórn Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda. Við gerum tillögu um að þeir verði fimm og lítum svo á að við séum að koma til móts við þau sjónarmið sem birtast í greinargerð með frumvarpinu um að kostnaður vegna innheimtu hafi verið of mikill og það sé full ástæða til að leita leiða til að spara á móti. Við gerum því svofellda breytingartillögu við frumvarp til laga um breyting á lögum um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda. Að henni standa auk þess sem hér stendur eins og ég áður nefndi hv. þingmenn Jón Gunnarsson og Gunnar Örlygsson en tillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„3. gr. laganna orðast svo:

Fjármálaráðherra skipar fimm menn og jafnmarga varamenn í stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn. Skulu fjórir stjórnarmanna skipaðir eftir tilnefningu stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða og einn án tilnefningar og skal hann vera formaður sjóðstjórnar en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Fjármálaráðherra ákvarðar þóknun stjórnarmanna. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að samþykkt sé lögmæt þarf meiri hluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.“

Við veltum upp því sjónarmiði hvort ekki megi spara enn frekar hvað varðar rekstur sjóðsins með því að fækka stjórnarmönnum um einn. Það kann líka í einhverjum tilvikum að vera óheppilegt að fjöldi stjórnarmanna skuli vera á tölu þar sem mál geta fallið á jöfnu, því sé eðlilegt að styðjast við oddatölu í stað þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir. Virðulegi forseti. Við leggjum þessa tillögu fram í anda þess sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að hér er verið að leita leiða til að spara í rekstri.