131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[18:22]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.

Það er rétt í upphafi að taka fram að þetta frumvarp er aðeins eitt af mörgum sem hér eru ýmist til umfjöllunar eða verða það fljótlega og virðast öll vera því merki brennd að auka tekjur ríkissjóðs verulega. Þegar allt er lagt saman má segja að hér sé í raun stigið verulegt skref í aðhaldsátt í ríkisfjármálum og verður að telja það afar sérkennilegt miðað við þá stöðu sem er í efnahagslífi þjóðarinnar að hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar skuli ekki hafa vakið á því sérstaka athygli að þeir væru að sýna verulegt aðhald í ríkisfjármálum með öllum þeim hækkunum á gjöldum og sköttum sem hér hafa verið lagðar fram.

Það er líka merkilegt að á sama tíma og allar tillögurnar eru lagðar fram er ríkisstjórnin aðallega að halda því á lofti að boðaðar séu skattalækkanir sem eiga að nema um 4 milljörðum kr. á næsta ári. Hæstv. fjármálaráðherra hefur talið að nú væri verið að skila aftur þeim efnahagsbata sem ríkissjóður hefur notið á undanförnum árum. Ef hins vegar er horft til þeirra skatta- og gjaldahækkana sem dunið hafa yfir á þessu ári og boðaðar eru á því næsta kemur í ljós að þessar lækkanir — afsakaðu, herra forseti, en svona getur maður ruglast í þessum orðum hækkun og lækkun og ekki skrýtið því að svo mikill er bægslagangur hv. þingmanna ríkisstjórnarinnar að boða skattalækkanir að það er ekki skrýtið þó að manni sé það tamt á tungu, en það eru hækkanir sem þeir standa auðvitað fyrst og fremst frammi fyrir en þegar maður skoðar lækkanirnar duga þær ekki til að mæta þeim hækkunum sem boðaðar hafa verið eða nú þegar eru samþykktar. Ég held að nauðsynlegt sé í þessu samhengi að rifja sérstaklega upp nokkrar staðreyndir í málinu.

Á þessu ári hækkaði þungaskattur og vörugjald af bensíni um 1.200 millj. kr., vaxtabætur voru skertar um 600 millj. kr., afnám frádráttar tryggingagjalds vegna viðbótarlífeyrissparnaðar skilaði ríkissjóði um 600 millj. kr., framlag ríkissjóðs vegna sjúkratrygginga lækkaði um 750 millj. kr., barnabætur voru skertar um 150 millj. kr. og komugjöld á heilbrigðisstofnanir hækkuðu um 50 millj. kr. Þá var nefskattur í Framkvæmdasjóð aldraðra hækkaður um 23 millj. kr. Þá er ótalið að persónuafsláttur fylgdi ekki launaþróun. Þrátt fyrir það er upphæðin á yfirstandandi ári komin yfir 3 milljarða kr.

Herra forseti. Ég mun fljótlega fara yfir þær hækkanir sem boðaðar eru á næsta ári en vegna þess sem ég sagði varðandi persónuafsláttinn tel ég nauðsynlegt að vitna í gögn sem komu fram í efnahags- og viðskiptanefnd fyrir stuttu sem tengjast persónuafslætti. Þar er merkilegt línurit sem hv. þingmaður og formaður nefndarinnar, Pétur H. Blöndal, óskaði sérstaklega eftir að kæmi fram í nefndinni. Þar eru þrír ferlar. Í fyrsta lagi ferill persónuafsláttarins, hvernig hann hefur þróast frá upphafi til ársins í ár. Í öðru lagi er það ferill sem sýnir þróun neysluvísitölu, þ.e. ef persónuafslátturinn hefði fylgt neysluvísitölu, og þriðji ferillinn er ef persónuafslátturinn hefði fylgt launavísitölu. Það er afskaplega merkilegt hversu miklu munar orðið á ferlunum. Neðsti ferillinn er samt persónuafslátturinn í dag, sá næsti er ef fylgt hefði verið neysluverðsvísitölu og sá þriðji er ef fylgt hefði verið launavísitölu.

Það er líka athyglisvert hvenær fer virkilega að skera á milli ferlanna. Skurðpunkturinn á ferlinum um persónuafsláttinn og launavísitöluna er að því er virðist um mitt ár 1995. Þá fer fyrst að muna á milli ferlanna og hefur vaxið jafnt og þétt síðan. (Gripið fram í: Hvað gerðist 1995?) Það er nákvæmlega spurningin: Hvað gerðist árið 1995? Það skyldi þó ekki vera að það ár hafi sú ríkisstjórn sem nú situr verið mynduð? Ekki ætlum við þeim ágætu herrum að þeir viti ekki hvað þeir gera. Það hlýtur því að hafa verið meðvituð stefna að draga úr persónuafslætti á þennan hátt og ef notaður er rökstuðningur ýmissa hv. þingmanna ríkisstjórnarinnar þýðir það þegar þetta er ekki látið fylgja skattahækkun. Hér hafa verið haldnar nokkrar lærðar ræður um að þegar hlutum er ekki breytt í takt við verðlag þýði það skattahækkun í þessu tilfelli en í öðrum tilfellum eins og a.m.k. tveir hv. þingmenn sem hér sitja í salnum notuðu þegar rætt var um áfengisgjald og í ljós kom að ekki átti að hækka áfengisgjald varðandi léttvín og bjór, þá þýddi það í raun og veru lækkun. Með nákvæmlega sömu röksemdafærslu þýðir það að persónuafslátturinn fylgi ekki skattahækkun ef notuð eru rök þessara ágætu hv. þingmanna.

En hvað skyldi þetta þýða í tölum? Áðan talaði ég um að á þessu ári væri 3 milljarða hækkun og nú skulum við skoða persónuafsláttinn. Það vill svo til að ég hef í fórum mínum minnisblað frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins og línuritið er líka úr ráðuneytinu. Þetta eru því ekki einhverjar uppdiktaðar tölur stjórnarandstæðinga að reyna að leika einhvern leik, eins og gjarnan er gert af hálfu ríkisstjórnarinnar þegar verið er að fjalla um þessi mál, heldur eru þetta staðreyndir. Ég trúi því að þær tölur sem ég mun fara með á eftir og eru fengnar úr fjármálaráðuneytinu séu frekar í lægri kantinum, vegna þess að ekki trúi ég því að þeir bæti í gagnvart því hversu vasklega ríkisstjórnin hefur staðið að skattahækkunum þrátt fyrir öll loforðin um skattalækkanir.

Hér segir að tekjulækkun ríkissjóðs sé 36,4 milljarðar ef fylgt hefði verið launavísitölu frá 1989 en 16,3 milljarðar ef fylgt hefði verið vísitölu neysluverðs frá 1988. (Gripið fram í: Hvenær var skurðpunkturinn fenginn?) Skurðpunkturinn var fenginn 1995, hv. þingmaður, þ.e. á þeim tímapunkti sem svo undarlega vill til að mynduð var ríkisstjórn á Íslandi. Sama ríkisstjórn og er að reyna að telja fólki trú um að þetta sé einhver sérstök skattalækkunarríkisstjórn. En það má fara yfir allar tölurnar og átta sig á því að þetta á við örlítinn hóp í samfélaginu. Þar virðist ríkisstjórnin vera að uppfylla loforðin um skattalækkanir. Það er ákveðinn hópur sem er sérstaklega valinn úr til þess að lækka skatta hjá. En hinn almenni maður, ég tala ekki um þeir sem minna hafa á milli handanna, fá ekki að njóta skattalækkunar ríkisstjórnarinnar. Nei, á þeim skal hækkað. Í þeirra vasa skal sótt það sem síðan er dreift út til annarra. Við sjáum því að þó að við notum þessar lágu tölur úr fjármálaráðuneytinu er sannarlega margfalt til fyrir heildarskattalækkun að svo boðuðu, þ.e. búið er að sækja þetta áður en því er dreift.

Frú forseti. Það er rétt að halda örlítið áfram með nefndarálitið því þar var ég staddur að ég var búinn að taka saman þær tölur sem voru hækkaðar á yfirstandandi ári og kominn upp í um 3 milljarða kr. Það má segja um þessar hækkanir að þær munu allar halda áfram á næsta ári og til viðbótar hefur ríkisstjórnin ákveðið að hækka áfengisgjald um 340 millj. kr., hækka aukatekjur ríkissjóðs um 200 millj. kr. Það er það frumvarp sem hér er til umræðu. Við teljum eðlilegt að þetta sé sett í samhengi því ekkert er þetta eitt og sér í heiminum heldur hluti af heild. Það á að hækka bifreiðagjald um 120 millj. kr. Það á að hækka skólagjöld í háskólum um 140 millj. kr. Það á að hækka komugjöld enn á ný á heilbrigðisstofnanir og aftur um 50 millj. kr. Vaxtabætur verða skertar til viðbótar skerðingunni í ár um 300 millj. kr. og framlenging umsýslugjalds fasteigna kostar 280 millj. kr. á næsta ári. Breytingar á þungaskatti skila aukalega 350 millj. kr. Þá mun viðbótarhækkun í Framkvæmdasjóð aldraðra verða um 24 millj. kr. Samtals er þetta komið í tæpa 5 milljarða kr. á næsta ári. Þá bætist við það sem ríkisstjórnin sótti á þessu ári og þá erum við kominn upp í rúma 8 milljarða kr. á móti boðaðri skattalækkun upp á 4 milljarða.

Frú forseti. Von er að spurt sé: Er um að ræða skattahækkun eða skattalækkun? Allt þetta sjónarspil minnir á fyrri vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Hún er orðin býsna vön í þessum vinnubrögðum. Fyrst er af fólkinu tekið og síðan er hluta fengisins skilað með mikilli skrautsýningu. Það er eðlilegt, frú forseti, að hæstv. fjármálaráðherra kvarti á hátíðarfundi hjá Sjálfstæðisflokknum um að skattaveisla hans hafi verið misskilin. Allt tal hæstv. fjármálaráðherra um að verið sé að skila efnahagsbatanum til baka er hrein og klár blekking. (Gripið fram í: Byltingin er þöguð í hel.) Hárrétt, hv. þingmaður. Það er mjög sérkennilegt að þessa byltingu í aðhaldi í ríkisfjármálum skuli reynt að þaga í hel af hv. þingmönnum ríkisstjórnarinnar vegna þess að það sem fyrst og fremst hefur verið beðið um er að sýnt yrði aðhald í ríkisfjármálum. Og þegar það er gert á þennan hátt þá steinþegja hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar. Skattahækkunum er beitt, hlýtur að vera, til að tryggja ákveðið aðhald í ríkisfjármálum. Nei, þá vilja hv. þingmenn ríkisstjórnarinnar ekki orða það einu sinni, ekki kannast við það þannig að mér finnst rétt að reyna að hæla þessari ríkisstjórn þó fyrir eitthvað því það er ekki svo margt sem hægt er að hæla henni fyrir. En hér er þó gengið nokkuð rösklega fram í aðhaldi. Ég hefði viljað, hv. þingmaður, fara kannski örlítið aðrar leiðir í aðhaldinu en þessa vegna þess að sú leið að seilast ætíð í vasa þeirra sem minna hafa er ekki að mínu skapi. Ég held að við gætum frekar átt við aðra hópa varðandi það að hækka skatta í þessu landi. (Gripið fram í: Hátíðarsamkundur með ...)

Frú forseti. Í árslok 2005 er ljóst að ríkissjóður hefur, ef nota má það orð, hagnast um einhverja milljarða króna á öllum þessum breytingum. Enn á ný, frú forseti, er ljóst að þetta aðhald í ríkisfjármálum er sérstakt fyrir það að stjórnarliðar hafa ekki vakið nokkra athygli á því heldur fyrst og fremst rætt um skattalækkun sem er, eins og sýnt hefur verið fram á, örlítið brot af öllum þeim hækkunum sem átt hafa sér stað. Það er líka athyglisvert að með þeim hækkunum sem átt hafa sér stað er enginn greinarmunur gerður á fólki heldur gengið í vasa allra og jafnvel gengið í vasa þeirra sem í ýmsum erfiðleikum eiga vegna þess að sum gjöldin sem hér er verið að hækka nálgast oft það fólk frekar en hina. Ójöfnunarstefnan er því í algleymingi og það kemur okkur reyndar ekkert á óvart að sumt sé reynt að fela. Við höfum séð það á ýmsum öðrum sviðum.

Síðan kemur saklaust orðalag í áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar þar sem reynt er að gera afskaplega lítið úr þeirri gjaldahækkun sem hér á sér stað og að sjálfsögðu er ekki minnst á að verið sé að hækka gjöld út og suður og búið að stunda það um nokkurt skeið. Ég tala nú ekki um hinn sérstaka kafla um persónuafsláttinn sem hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur vakið alveg sérstaka athygli okkar á með beiðninni um það ágæta línurit sem ég sýndi áðan og sýnir svart á hvítu að afrekið í þeim efnum er hreinlega ekki hægt að taka af núverandi ríkisstjórn. Hún á þetta afrek algjörlega ein. Það hefur enginn aðstoðað hana við það, ekki nokkur maður. Hv. þingmaður hefur hins vegar gefið það oft í skyn, sérstaklega í efnahags- og viðskiptanefnd, að einhverjir aðrir hefðu aðstoðað við þetta. En mér finnst engin ástæða til að taka þetta af hæstv. ríkisstjórn. Þessi ríkisstjórn á þessi afrek öll algerlega óskipt og þetta sönnunargagn sem hv. þingmaður bað sérstaklega um sýnir það algerlega svart á hvítu. Ég verð að hæla hv. þingmanni fyrir að hafa beðið sérstaklega um þetta línurit. Ég hef aldrei áður séð þetta svona skýrt. Þetta er miklum mun skýrara, eins og hv. þingmaður þekkir vel, en fá þetta í töflu með fullt af tölum. Hér blasir þetta við. Ég trúi því að hv. þingmaður komi jafnvel í sérstaka ræðu á eftir og fari yfir það hversu glæsilegur árangur ríkisstjórnarinnar er á þessu sviði. (Gripið fram í.) Hér hafa menn hækkað skatta um marga milljarða kr. Það er spurning hvort það eru tæpir 20 milljarðar eða hvort þetta eru rúmlega 30 milljarðar eða tæplega 40 milljarðar. (Gripið fram í.) Þetta eru slík afrek að það er alveg með ólíkindum að hv. þingmenn skuli ekki hæla sér af þessu. Ekki trúi ég því, frú forseti, að þetta hafi menn verið að gera án þess að vita hvað þeir voru að gera. Maður trúir því ekki, alla vega ekki á hinn talnaglögga hv. þm. Pétur H. Blöndal. Hann hlýtur að hafa vitað allan tímann að þarna væru menn á fullu í skattahækkunum, í skattahækkunum sem hv. þingmaður hefur stutt allan tímann og hlýtur að vera býsna ánægður með.

Frú forseti. Ég sé að hv. þm. Pétur H. Blöndal iðar í skinninu væntanlega til að lýsa því yfir hversu æstur hann er orðinn yfir hinu magnaða frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra sem kallað er skattalækkunarfrumvarpið og vill væntanlega fá að hæla því frumvarpi örlítið meir. En ég vænti þess, frú forseti, að hv. þingmaður geri það í ljósi þeirra talnalegu staðreynda sem hér hefur verið farið yfir. (Gripið fram í.)