131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[18:38]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er oft þannig þegar menn lenda í rökþrotum að þá fara þeir út um víðan völl og tala um eitthvað allt annað en til umræðu er. Hér erum við að ræða 375. mál um aukatekjur ríkissjóðs. Við erum ekkert að ræða um skattalagafrumvarpið. Það ætlum við að ræða á morgun. Hv. þingmaður hefur þjófstartað af því að hafði átti engin rök við því sem ég ætla að tala um núna.

Samkvæmt töflu sem við fengum í hv. efnahags- og viðskiptanefnd kemur fram að leyfi til að versla með skotvopn, skotfæri eða skotelda, hvort heldur í heildsölu eða smásölu auk gjalda fyrir verslunarleyfi, var 15 þús. kr. í frumvarpinu en er hækkað upp í 16.500. Þetta gjald er búið að vera óbreytt síðan 1991, í 13 ár, frú forseti. (Gripið fram í.) Það ætti núna að vera 23.250 ef það hækkaði eins og verðlag almennt, eins og epli og appelsínur og allt annað. Nei, það er enn þá 15 þús. kr. og er hækkað upp í 16.500. Ég ætla að spyrja hv. þingmann: Er þetta skattalækkun eða skattahækkun? (Gripið fram í.)

Síðan er annað, þ.e. skráning hlutafélaga eða samvinnufélaga sem er 150 þús. kr. í lögunum í dag og hefur verið óbreytt síðan 1995. Það er hækkað upp í 165 þús. kr. en ætti að vera 210 þús. kr. ef verðlagi hefði verið fylgt, ef það hefði fylgt verðlagi eins og epli og appelsínur og aðrar vörur. Það ætti að vera 210 þús. kr. Ef einhver ætlar að stofna hlutafélag núna þá þarf hann ekki að borga nema 165 þús. kr. miðað við 210 þús. kr. ef þetta hækkaði í samræmi við verðlag. Er þetta skattahækkun eða skattalækkun, frú forseti?