131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[18:40]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að þetta eru gjalda- og skattahækkanir. Það er ekki nokkurt vafamál vegna þess að þetta er ekki þannig sjálfvirkt að það eigi að hækka samkvæmt vísitölunni eins og hv. þingmaður hefur margoft sagt. En ef við gefum okkur þetta þá getum við út af fyrir sig tekið þetta svona og lagt þetta til hliðar við persónuafsláttinn vegna þess að hv. þingmaður hlýtur að vilja hafa samhengi í hlutunum. Því hlýtur persónuafslátturinn að eiga að fylgja launavísitölunni líka og þá eigum við væntanlega nóg í pottinum til að mæta þessu öllu saman.

Málið er hins vegar fyrst og fremst það að allar þær hækkanir sem hér eru eru meðvitaðar. Þær eru ekki sjálfvirkar. Ef við teldum að þetta ætti að vera sjálfvirkt mundum við væntanlega leggja þetta fram með fjárlagafrumvarpi og segja að hér sé verið að mæta þessu og gera það á hverju einasta ári. Það er ekki þannig. Þessar hækkanir eru meðvitaðar. Og fyrst hv. þingmaður er farinn að leika sér með einstakar tölur úr þessu frumvarpi sem ég að sjálfsögðu get haldið langa ræðu um og tínt til hverja einustu tölu ef hv. þingmaður telur að umræðan eigi að snúast um það, þá er auðvitað ekki eðlilegt að gera það vegna þess að við erum með þetta í samhengi við annað. Ég er að reyna að vekja athygli hv. þingmanns á því að þetta er bara hluti af heild.

Vegna þess að hv. þingmaður hefur voðalega gaman af tölum og bendir á eina og eina tölu og segir að þær hafi hækkað að jafnaði um 10% eins og segir í áliti hans þá er væntanlega hægt að spyrja hv. þingmann vegna þess að m-liður og n-liður 13. gr. hljóða svo, með leyfi forseta:

„m. Í stað fjárhæðarinnar „800 kr.“ í 5. og 6. tölul. kemur: 3.000 kr.

n. Í stað fjárhæðarinnar „1.800 kr.“ í 7. tölul. kemur: 3.000 kr.“

Hv. þm. Er þetta kannski líka skattalækkun?