131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[18:42]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég gat um það í andsvari áðan að í eina tíð hefðu fjármálaráðherrar getað sjálfir hækkað þessi gjöld á þriggja, fjögurra mánaða fresti í (Gripið fram í: Nú hefur ...) samræmi við hækkun byggingarvísitölu. Ég þarf að endurtaka mig aftur og aftur vegna þess að menn virðast ekki fylgjast með umræðunni. (Gripið fram í: Jú, jú.) Hefur hv. þingmaður fylgst með þessu? (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Hann vissi þá sem sagt að þessi gjöld (Gripið fram í.) voru hækkuð hérna einu sinni sjálfvirkt. En svo var horfið frá því með breytingu á stjórnarskránni og nú þarf að hækka þau árlega til að þau rýrni ekki að verðgildi og verði lítils virði eða einskis (Gripið fram í.) virði. Hækkuninni sem við erum að framkvæma hérna lýsti hv. þingmaður áðan sem í rauninni raunhækkun. Það er mjög skemmtilegt að fá það fram — ég ætla að fá það geymt — að það sé raunhækkun þegar gjald fyrir skráningu hlutafélaga hækkar úr 150 þús. kr. í 165 þús. þegar það ætti að vera 210 þús. kr. miðað við verðlag eins og allt annað verðlag. Hv. þingmaður kallar þetta raunhækkun. Ég vil gjarnan að því sé haldið til haga.

En varðandi persónuafsláttinn þá er það náttúrlega allt annað mál. (Gripið fram í.) Þar erum við að tala um skattfrelsismörk, frítekjumark, og frítekjumarkið er háð skattprósentunni og persónuafslættinum. Frítekjumarkið, þ.e. þær tekjur sem menn hafa til ráðstöfunar áður en farið er að borga skatt, hefur hækkað umtalsvert nema fyrstu árin eftir að það var tekið upp. Árin 1989 og 1990 lækkaði frítekjumarkið mjög hratt vegna þess að skattprósentan var hækkuð. Þetta þarf að taka með inn í dæmið og ég get sýnt fram á það og fullyrt það að frítekjumarkið hefur hækkað. Þetta eru bara skattleysismörkin eða persónuafslátturinn en hefur ekkert að segja um það hvert frítekjumarkið er, þ.e. hvaða tekjur menn mega hafa til ráðstöfunar áður en þeir fara að borga skatt. Það mark hefur hækkað umtalsvert og nánast eins og verðlag undanfarin ár.