131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[18:50]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var auðvitað mjög skýrt. Þetta verður ekki skýrara. Stefna Samfylkingarinnar er: Að fara yfir þetta í heild sinni, virðulegi forseti, fara yfir þetta í heild sinni.

Virðulegi forseti. Hvaða grín er þetta? Er þetta ekki stjórnmálaflokkur? Er þetta ekki þingflokkur? Þeir koma upp í hverju máli á fætur öðru og gagnrýna. Svo er bara einföld spurning: Hvað viljið þið gera? Eigum við ekki bara að ráða þessu? Fara yfir þetta í heild sinni. Og það er kallað frammí, aukatekjur ríkissjóðs. Hvað viljið þið gera við það? Þetta er ekkert sérstaklega flókið. Þetta er ekki nýtt mál í íslenskri pólitík. Það er ekki eins og menn hafi verið að uppgötva. Það er ekki eins og þeir sem hér sitja inni, og koma úr hinum og þessum flokksbrotum Samfylkingarinnar, séu nýliðar. Það er ekki einu sinni komið að þessu í gegnum tíðina. Nei, nei. Hver er stefnan? Alveg skýr. Fara yfir þetta í heild sinni. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu ...) Hann stóð í tvær mínútur og sagði: „Fara yfir þetta í heild sinni“ nokkuð reglulega með einhverjum krúsindúllum. Og ég vildi gjarnan, virðulegi forseti — og í örvæntingu sinni kallar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem er farinn að átta sig á vanda flokks síns í málinu, hann kallar Lína.Net, sem er honum mjög hugleikið, enda afsprengi Samfylkingarinnar. En hvað sem því líður, þá vil ég aftur gera tilraun. Hver er stefna Samfylkingarinnar hvað varðar aukatekjur ríkissjóðs? (Gripið fram í.) Hver er stefnan? Það liggur alveg fyrir hver stefna ríkisstjórnar er hvað það varðar, en gott væri að fá það á hreint hver sé stefna Samfylkingarinnar, ef þú fengir að ráða þessu hv. þm. Einar Már Sigurðarson. Hvað mundir þú gera?