131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[18:55]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera kominn hálfgerður galsi í menn. Sumir hv. þingmenn eru farnir í jólaköttinn, svei mér þá.

Hér erum við að ræða um breytingu á lögum um aukatekjur ríkissjóðs þar sem er verið að færa gjöld nær verðlagi en umræðan sem fer fram er alveg ótrúleg. Hér er verið að hækka gjöld eða færa þau að verðlagi, raungildi og tæplega það. Hvað gerir stjórnarandstaðan? Hún kemur og segir að verið sé að hækka skatta bara til að reyna að fela að ríkisstjórnin sé að lækka skatta. Svo ruglast þeir, hækkanir og lækkanir, voru ekki klárir á því um daginn og eru ekki orðnir klárari á því núna.

En rétt til að fara yfir þessar aukatekjur ríkissjóðs, þá vita hv. þingmenn sem bæði hafa verið í sveitarstjórnum og öðrum málum að það verður að hækka gjöld til samræmis við verðlag. Það er ekki hægt að vera með sömu gjöldin ár eftir ár, því það er verðbólga. Hún getur verið 1, 2, 3 eða 4%. Þetta er það sem verið er að gera með aukatekjunum og í þessu frumvarpi. Það hefur verið farið yfir þetta í dag þannig að ég átta mig ekki á röksemdum hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar og Lúðvíks Bergvinssonar, sem ég taldi að væru þingmenn með ágæta greind en þeir hafa greinilega skilið hana eftir heima núna.

Hér er dæmi um gjöld sem er verið að hækka, það eru orðin 3–4 ár síðan þetta var hækkað og þetta nær ekki nærri verðlagi. Hér eru gjöld sem ættu að vera 46.900 kr. ef farið verður með hækkun frá vísitölu en eru 38.500 kr. þannig að það er verið að tala um raunlækkun á aukatekjum ríkissjóðs um 5–10%. Svo segja menn að þetta sé að hækka í raun. Þetta er hækkun í krónutölum, en krónan er ekki söm að verðgildi. Hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, hv. þm. Pétur Blöndal er búinn að fara yfir þetta í hverri einustu ræðu en svo virðist sem þingmennirnir skilji þetta ekki eða vilji ekki skilja þetta. Þetta er alveg ótrúlegt fyrir mann að hlusta á þetta, eins og maður sé kominn í sandkassaleik af verstu sort. Við erum þingmenn þjóðarinnar og það er lágmarkskrafa að við getum skilið þetta.

Það var t.d., virðulegi forseti, verið að ræða hækkun á áfengisgjaldi, þ.e. hækkun á útsöluverði á sterkum vínum þar sem verðlag var fært upp um 5,7% meðan verðlag hækkar um 7%, og það er því raunlækkun. Tóbakið hækkar um 3,5%. Hvorki léttvín né bjór var hækkað sem er raunlækkun á þeim tegundum, og þá er sagt að það sé hækkun. Hér er öllu snúið á hvolf. Það sem er stefna ríkisstjórnarinnar er að lækka skatta, þ.e. að færa fjármuni beint til fólksins án þess að ríkið sé að vasast í þeim beint. En það er ekki stefna hv. þingmanna Samfylkingarinnar, nei. Þeir sögðu fyrir kosningar: Nú ætlum við að lækka skatta, koma með 18 eða 20 milljarða. Eftir kosningar koma þeir og segja: Eina leiðin í aðhaldi í ríkisfjármálum er að hækka skatta. Ekki vilja þeir lækka framlög til almannatryggingakerfisins eða Fæðingarorlofssjóðs eða hvað það heitir. Nei, þeir vilja það ekki. Það hefur aldrei komið nein stefna hjá þeim. En þeir vilja hækka skatta. Ekki málið. Mér finnst þessi málflutningur alveg fyrir neðan allar hellur, í alvöru að talað.

Við skulum snúa okkur aftur að víninu. Hér var raunlækkun á víni, sem styrkir ferðamannaiðnaðinn og hefur kannski líka í för með sér neyslustýringu, því þá er neyslunni stýrt inn á léttari tegundir, þ.e. bjór og léttvín í stað sterkra vína. Síðan er búið að fara í gegnum nokkrar þjónustutekjur sem hafa verið hækkaðar eða færðar að verðlagi, nær allar lægra en verðlag, þær hafa allar lækkað að raungildi. Rétt til að fara yfir skattalækkanir með þingmönnum stjórnarandstöðunnar, sem ég held að séu ekki alveg klárir á því að virðisaukaskatturinn hefur verið lækkaður niður í 5%, flatt, þá er búið að samþykkja lög um að afnema sérstakan tekjuskatt og nú liggur frammi frumvarp um að afnema eignarskattinn, ímyndið þið ykkur. En við förum í þá umræðu þegar farið verður yfir það frumvarp hér.

En ég kom með spurningu til fjármálaráðuneytisins í efnahags- og viðskiptanefnd varðandi hvaða tekjur hefðu verið af eignarskatti ef sama álagningarprósenta hefði verið notuð eins og var 1990 í tíð þáverandi vinstri stjórnar. Það voru 6,5 milljarðar. Nú verða tekjur ríkissjóðs vegna eignarskatts 2,4 milljarðar og það er verið að þurrka þær út. Síðan á að lækka tekjuskatt í þrepum niður í 34%. Einu sinni var hann 43%. Það eru tvær aðferðir til að gera þetta. Það er annaðhvort að hækka persónuafsláttinn eða fara tekjuskattsleiðina og sú leið var valin. Þetta lítur því tiltölulega einfalt út og er ótrúlegt að reynt skuli vera að snúa þessu öllu á hvolf. Það virðist vera alveg sama í hvaða máli það er, menn koma hér og segja að með því að hækka skatta séu menn að lækka þá, og vita betur. Þetta er eins og hjá sveitarfélögunum. Ef menn eru að hækka leikskólagjöld á milli ára, eða hvað þetta heitir, þá eru menn að hækka skatta. Menn eru að færa þjónustugjöldin að réttu verðlagi.

Virðulegi forseti. Auðvitað legg ég til að þetta frumvarp verði samþykkt þar sem verið er að tala um raunlækkun á aukatekjum ríkissjóðs.