131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[19:06]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bar upp litla spurningu til hv. þingmanns og spurði einungis um nettóniðurstöður fyrir ríkissjóð þar sem álögur hafa hækkað um 8 milljarða á þeim tveimur árum sem ég nefndi en skattalækkanir ná 5 milljörðum. Þetta var ekki stærri spurning en hann fór um víðan völl og var um tíma staddur á landnámsöld og vildi fara yfir verðlagið á þeim tíma og þangað ætla ég ekki með hv. þingmanni. Hv. þingmaður má gefa okkur í stjórnarandstöðunni þessa einkunn og það er allt í lagi. Hann má gefa málflutningi okkar hvaða einkunn sem er en ég er með frétt úr Morgunblaðinu og þar segir, með leyfi forseta:

„Útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu fóru í 35,4% í fyrra og hefur útgjaldahlutfallið ekki verið hærra a.m.k. frá árinu 1980.“

Með öðrum orðum hafa útgjöld ríkissjóðs aukist umfram hagvöxtinn. Annars værum við ekki að tala um að útgjöldin hafi aldrei verið hærra hlutfall af landsframleiðslu. Þetta er ekki eitthvað sem stjórnarandstaðan er að búa til, síður en svo. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður má gefa okkur hvaða einkunn sem er en þetta liggur fyrir. Þetta er veruleikinn og auðvitað er erfitt að koma upp á hól og æpa og góla: Skattalækkun, skattalækkun. En af því að tekjurnar eru teknar inn undir öðru nafni, aukatekjur, bifreiðagjöld, Landskrá fasteigna eða hvað þetta heitir allt saman er ekki um skattahækkanir að ræða. Við vorum að tala um nettóniðurstöður fyrir ríkissjóð. Það er allt og sumt sem við nefndum. Það eru 3 milljarðar og hv. þingmaður má gefa því hvaða einkunn sem er, en um leið gefur hann aðeins sjálfum sér einkunn.