131. löggjafarþing — 53. fundur,  8. des. 2004.

Aukatekjur ríkissjóðs.

375. mál
[19:10]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Af því að ég veit að hv. þm. Gunnar Birgisson kann afskaplega vel að fara með tölur er leiðinlegt að hann skuli ekki hafa kynnt sér þær tölur sem hann þarf að hafa til að geta reiknað út frá. Þá sæi hv. þingmaður að niðurstaðan er auðvitað sú sem við höfum verið að tala um. Þó má gagnrýna okkur fyrir a.m.k. eitt, að við höfum farið heldur varlega með að hækka tölur. Ég er fyllilega tilbúinn til að færa tölurnar frá því í ár inn á sama verðlag og tölurnar á næsta ári. Það mundi að sjálfsögðu skila enn meiri mismun vegna þess að á þessu ári var byrjað að safna í pottinn sem á að deila út á næstu árum en þó á ekki að skila öllu, langt frá því.

Herra forseti. Vegna þess að áðan í umræðum var verið að tala um niðurstöðu sem kom út úr hinu glæsilega línuriti sem hv. þm. Pétur H. Blöndal bað um, að skárra væri að miða við skattleysismörkin, hef ég í millitíðinni fengið tölur sem sýna svart á hvítu, eðlilega, að niðurstaðan er nokkurn veginn sú sama byggð á tölum úr fjármálaráðuneytinu, hv. þingmaður. Hún sýnir okkur, alveg sama hvort við miðum við persónuafsláttinn eða skattleysismörkin, að tekjuaukning ríkissjóðs er ýmist — það vill nú svo til, hv. þingmaður, þegar ég skoða þetta nánar að það er líklega meira ef við skoðum skattleysismörkin. Það er bara ekkert annað, miðað við launavísitölu rúmir 40 milljarðar kr. En það er ekkert skrýtið að þeir hv. þingmenn, sem því miður hafa ekki kynnt sér allar tölurnar og hafa allan tímann trúað áróðrinum um að verið væri að lækka skatta, eigi svolítið erfitt með að kyngja staðreyndunum þegar þær loksins liggja fyrir en ég vona og veit að hv. þingmaður mun leiðrétta allt það sem hann hefur sagt þegar hann er búinn að kynna sér staðreyndirnar.